153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

skýrsla ríkisendurskoðanda um fiskeldi á Íslandi.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hæstv. matvælaráðherra hefur talað algerlega skýrt. Hún vill einmitt að þessi atvinnugrein byggist upp á sjálfbærum grunni. Hún hefur talað algerlega skýrt um það að ástæðan fyrir því að hún biður um þessar úttektir er að hún vill gagnsæja og opna umræðu þannig að þessi atvinnugrein sé ekki bara út frá forsendum efnahags heldur líka samfélags og umhverfisins. En það eru auðvitað ýmsar athugasemdir gerðar í þessari skýrslu og það geta fleiri tekið þær til sín en hæstv. ríkisstjórn. Hv. þingmaður sat nú sem sá ráðherra sem skipaði einmitt starfshóp með hagsmunaaðilum sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við. Eigum við ekki að nálgast þetta verkefni af auðmýkt og taka höndum saman? Ég held að við getum öll verið sammála um að það er svigrúm til úrbóta, svo sannarlega. Ég er alveg handviss um að hæstv. matvælaráðherra tekur þetta alvarlega og mun vinna úr þessu og ég vonast til þess að um það geti verið þverpólitísk sátt hérna í þinginu því að ég held að það skipti máli að við séum meðvituð um að þessi löggjöf, sem var endurnýjuð á síðasta kjörtímabili, hafði áður verið í gildi frá árinu 2008, þannig að við erum ansi mörg hér sem höfum setið á þingi á þeim tíma. (Forseti hringir.) Tökum þessu með auðmýkt og sameinumst um það að gera betur í þessum málum.