153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Þetta er brýnt mál. Ég vil í fyrsta lagi segja það hér að ég hef gert þetta að algjöru forgangsmáli, að ná samningum við sérfræðilækna, svo það sé sagt hátt og skýrt hér úr þessum ræðustól. Það er orðið brýnt og það verður brýnna með hverjum deginum að ná samningum við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna af þeim ástæðum sem hv. þingmaður fór hér yfir, þegar gliðnar svo mikið í milli, og við leggjum jafn mikla áherslu á aðgengi og jafnt aðgengi eins og raun ber vitni og jöfnuð eins og þessi ríkisstjórn hefur gert. Það er rétt að þegar samningar eru ekki í gildi þá er farið eftir gjaldskrá og við skulum ekki gleyma því að það er endurgreiðslureglugerð í gildi en það gliðnar í milli og sérstaklega við þær kringumstæður sem við búum við í dag. Þannig er þjónustuveitendum heimilt að leggja aukagjöld á heilbrigðisþjónustu, eins og hv. þingmaður lýsti hér réttilega, þegar ekki eru í gildi samningar um annað. Við vorum, ég og hv. þingmaður, ekki fyrir löngu síðan á fundi með Öryrkjabandalaginu og fulltrúum. Þar var fulltrúi frá Sjúkratryggingum og þar var fulltrúi sjálfstætt starfandi lækna og þar fórum við bara mjög opinskátt yfir stöðuna og viljann til að ná saman þannig að þar voru allir á þeim fundi og lýstu yfir þeim vilja. Ég bind enn vonir við að þess sé ekki langt að bíða að Sjúkratryggingar og sérfræðilæknar nái saman góðum samningi, sérstaklega fyrir fólkið í landinu, sjúklingana sem þurfa á þjónustunni að halda.