153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:41]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt orðum hæstv. forsætisráðherra þá er verðbólgan að mestu leyti utanaðkomandi. Því spyr ég: Hvaða tilgangi skila þá vaxtahækkanir? Er Pútín að fara að breyta einhverju? Er orkuverð í Evrópu að fara að lækka þegar við hækkum álögur og vexti á íslensk heimili? Ég segi bara nei við því. Svo þetta með að hafa ekki afskipti. Ég virði sjálfstæði Seðlabankans en eitthvert samtal hlýtur að þurfa að eiga sér stað. Þarna er búið að setja öll völd yfir heimilum landsins í hendur embættismanna sem nú kasta hverri eldvörpunni á fætur annarri á varnarlaust fólk. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi nú skipt sér af ýmsu, hún hefur gripið inn í samninga og gripið inn í alls konar hluti sem hafa verið í gangi þar sem menn eiga að vera sjálfstæðir. Ég get ekki séð annað en að það sé a.m.k. hægt að ræða hlutina og útskýra fyrir seðlabankastjóra, sem virðist ekki skilja það, að þessi hækkun sem varð á gjöldum og ríkisstjórnin var að valda nú um áramótin er ekki að fara að auka verðbólgu meira — hún er búin að valda henni. Það þarf ekki að hækka vexti vegna hennar.