153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég sagði ekki hér áðan að verðbólgan kæmi öll að utan heldur að hún væri á breiðum grunni og krónutöluhækkanirnar væru ekki eina ástæðan. Við getum rætt húsnæðismarkaðinn og ég vil bara minna á það, þar sem hv. þingmaður ræðir hér hlutverk Seðlabankans, að vegna aðgerða Seðlabankans á húsnæðismarkaði, sem kemur til vegna hlutverks Seðlabankans á sviði fjármálastöðugleika, þá höfum við séð þær aðgerðir bera árangur þegar kemur að húsnæðismarkaði og þróun verðbólgu. (Gripið fram í: Hver er kostnaðurinn við það?) Þannig að ég vil segja það að ég tel að Seðlabankinn og ný löggjöf um hann hafi tryggt það að bankinn hafi getað beitt sér betur í þeim hremmingum sem við höfum verið að ganga í gegnum. Vextirnir eru hins vegar helsta stýritæki bankans þegar kemur að stjórn peningamála og þar er Seðlabankinn í sambærilegri stöðu og allir seðlabankar í Evrópu sem eru að eiga við ekkert ósvipaða stöðu í verðbólguþróun. En ég vil líka segja það að að sjálfsögðu bindum við vonir til þess að hún fari nú hjaðnandi.