Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:38]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er búin að tala um 6. gr. frumvarpsins í síðustu þremur, fjórum ræðum mínum. Nú ætla ég að víkja að 2. gr. frumvarpsins, sem mér finnst einnig bagaleg út frá lagalegum forsendum. Þá langar mig að vísa í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands varðandi 2. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð á grundvelli 36. gr. sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að svo verði ekki. Greinargerð vegna slíkrar kæru, eða tilkynning um að hún verði ekki lögð fram, berist kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar en teljist að öðrum kosti niður fallin.

MRSÍ er hugsi yfir þessu ákvæði, að mati skrifstofunnar ætti að vera valkvætt hvort kæra eigi til kærunefndar útlendingamála eða ekki og telur fátítt að stjórnvaldsákvarðanir sæti sjálfkrafa kæru til æðra stjórnsýslustigs. Jafnframt skal á það bent að verði ákvæðinu breytt á þennan veg munu umsækjendur í málum er falla undir 36. gr. útlendingalaga, þ.e. Dyflinnar- og verndarmál, ekki eiga kost á að nýta sér almennan 15 daga kærufrest til ákvörðunar um framhald máls, en í framkvæmd hafa umsækjendur gjarnan nýtt sér umræddan frest, til að glöggva sig á efni ákvörðunar Útlendingastofnunar og til að afla gagna er haft gætu áhrif á endanlega niðurstöðu í málinu.

MRSÍ gerir einnig athugasemd við að ef greinargerð berst ekki til kærunefndar innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar teljist kæra niður fallin. Þess ber að gæta að stór hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd þarf aðstoð við kæru, t.d. er fólk almennt ekki með sérþekkingu á útlendingalögum, ákvæðum flóttamannasáttmálans og annarri alþjóðlegri löggjöf er máli getur skipt varðandi umsókn þeirra. Því má ætla að þessi stutti tími til greinargerðar muni eflaust valda einhverjum umsækjendum réttindamissi. Í þessu sambandi vísar MRSÍ til meginreglna stjórnsýslulaga svo sem andmælaréttar og rannsóknarreglu og þeirra sjónarmiða er fram koma í 6. gr. laga nr. 62/1994, um Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) er kveður á um rétt til réttlátrarmálsmeðferðar fyrir dómi. Eiga þau sjónarmið og heima í málsmeðferð stjórnsýslumála.“

Virðulegi forseti. Hvað er ég búin að vera að segja hér í viku samfleytt, sex daga samfleytt? Þessi ákvæði fara í bága við grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins svo sem andmælaregluna. Lögfesting á 2. gr. ákvæðisins kemur í veg fyrir það að umsækjandi eða einstaklingur, borgari í skilningi stjórnsýslulaganna, sem við erum búin að lögfesta hér, eigi kost á að nýta sér andmælaréttinn sinn, sem er auðvitað bara sjálfsagður réttur. Allir eiga að eiga kost á því að nýta andmælaréttinn sinn þegar mál þeirra er til meðferðar fyrir stjórnvaldi. Guð minn almáttugur.

Síðan talar Mannréttindaskrifstofa Íslands líka um 6. gr. laga nr. 60/1990, sem er náttúrlega mannréttindasáttmáli Evrópu. En í stjórnarskránni er líka talað um réttláta málsmeðferð, ég man ekki hvaða ákvæði það er. 1. mgr. 69. gr.? Ég man það ekki, ég rifja þetta upp og verð komin með þetta þegar ég kem í næstu ræðu, virðulegi forseti. En þetta er bara endurtekning á öllum þeim sjónarmiðum sem við höfum verið að hamra á hér uppi í pontu. Þetta er ekki bara skoðun minni hlutans, þetta er ekki smámál sem hér er um að ræða heldur eru allir sérfræðingar í þessum málaflokki á þeirri skoðun að þessi lagaákvæði gætu brotið á grundvallarréttindum fólks er varða réttláta málsmeðferð. Og líka bara almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar sem eiga auðvitað heima hér undir og ber að fara eftir þeim frekar en einhverjum sérreglum sem eru settar í lög um útlendinga frá árinu 2017. Það er bara gjörsamlega fáránlegt. Þessi lög, núgildandi lagabálkur — það má færa rök fyrir því að þetta séu nýmæli. Jú, þeim hefur verið beitt í framkvæmd alveg nokkrum sinnum auðvitað. En þessi lög eru samt ekki búin að mótast fullkomlega í framkvæmd, þeim hefur ekki verið beitt það oft og það reglulega að það sé hægt að segja að þessi lög séu fullmótuð. Og áður en að við náum að fullmóta þessi lög og festa framkvæmdina í sessi þá förum við bara og umbyltum lagabálkinum og lögfestum fleiri ný lög sem eru bara gersamlega fáránleg og sérfræðingar hafa varað við. Við neitum bara að taka mark á þessu.

Ég vil minna hæstv. dómsmálaráðherra á það að þessi lög sem núverandi útlendingafrumvarp hans, það sem hann er að leggja fyrir þingið, fer í bága við, að flokksbróðir hans, lagði þau fram árið 1993. Já. Stjórnsýslulögin. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lagði þau fram og þau voru samþykkt.