Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er nú kunnugleg sena: Hér stöndum við og erum búin að ræða frumvarp til laga um útlendinga, eingöngu Píratar, með einni undantekningu í dag, og aldrei sjáum við stjórnarliða nema þeir sniglast stundum hérna í kringum salinn og pískra jafnvel eitthvað úr gættinni, þegar fólk hefur sama málfrelsi og við hin í minni hlutanum. Það getur hægast tjáð sig með þeim hætti að stíga hér í pontu og nýta andsvararéttinn, nema allt sem við segjum sé bara svo rétt og skýrt og gott að ekki þurfi að bregðast við því. Er ekki þögn sama og samþykki, eða hvernig virkar það aftur? Alla vega tek ég bara undir með hv. þm. Indriða Inga Stefánssyni, (Forseti hringir.) ég sakna stjórnarliðanna dálítið í þessari umræðu, sérstaklega ef þau gera grein fyrir því hvaða breytingar þau sjá fyrir sér hérna milli 2. og 3. umr., (Forseti hringir.) vegna þess að þar gætum við verið að tala um stórvægilegar, mikilvægar breytingar.