Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram með yfirferð mína um greinargerð með frumvarpi um mannréttindasáttmála Evrópu og er að fara yfir beitingu ákvæða mannréttindasáttmálans í íslenskum dómsúrlausnum og eru dæmi hérna um hina mismunandi dóma þar sem hefur verið vísað í mannréttindasáttmálann áður en þetta frumvarp var samþykkt. Ég er kominn í fjórða dóminn í dómi Hæstaréttar sem birtur er í dómasafni 1975, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1975, bls. 601, var leyst úr máli þar sem krafist var viðurkenningar á ólögmæti synjunar borgaryfirvalda í Reykjavík um að veita manni leyfi til hundahalds. Í dómi Hæstaréttar var þessi synjun talin heimil á grundvelli tiltekinna ákvæða í lögum, reglugerð og lögreglusamþykkt, en meðal annars sagði eftirfarandi í dóminum um þetta: „Loks verður ekki á það fallist ... að framangreindar réttarreglur brjóti gegn 66. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands ... eða að virða beri þær að vettugi, vegna þess að þær séu andstæðar 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis ... Hefur sáttmálinn ekki öðlast lagagildi á Íslandi, en auk þess fer bannið við hundahaldi í Reykjavík ekki í bága við nefnt ákvæði hans.““

Fimmta dæmið, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar í dómasafni frá 1985, bls. 1290, reyndi á þá aðstöðu að maður hafði verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot í héraðsdómi, uppkveðnum af dómarafulltrúa sem var um leið fulltrúi lögreglustjórans í sama umdæmi og þar með yfirmanns þeirra lögreglumanna sem höfðu rannsakað brot þess sakfellda í öndverðu. Fyrir Hæstarétti krafðist hann ómerkingar héraðsdóms á þeirri forsendu að dómurinn hafi ekki verið kveðinn upp af óvilhöllum dómara, enda bryti sá háttur, að sami maður fjalli um mál sem lögreglustjóri og dómari, í bága við meginreglur 2. og 61. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Um þessa kröfu sagði í dómi Hæstaréttar: „Samkvæmt íslenskri dómstólaskipun er dómsvald í héraði utan Reykjavíkur í höndum bæjarfógeta og sýslumanna, sem hafa jafnframt lögreglustjórn á hendi. Þykir héraðsdómur eigi verða ómerktur af þeim sökum, að fulltrúi bæjarfógetans á Akureyri fór með mál þetta. Þá hefur heldur eigi verið sýnt fram á nein sérstök atriði, sem valdi vanhæfi bæjarfógetans né þessa fulltrúa hans.““

Þetta er klassískt dæmi um það hvernig hæfisreglurnar á Íslandi eru einhvern veginn mjög góð og gömul dæmi um það hvernig á ekki að standa að hlutunum hvað varðar hæfni o.s.frv. Við erum enn að glíma við þetta í dag, það er alltaf mjög gaman. Alla vega, áfram, með leyfi forseta:

„Úr sams konar kröfu leysti Hæstiréttur í dómi sem birtist í dómasafni frá 1987, bls. 356. Þar segir eftirfarandi um rökin sem voru færð fyrir kröfu um ómerkingu héraðsdóms: „Ákvæði 2. greinar stjórnarskrár lýðveldisins ... hafa ekki verið talin standa í vegi þeirri skipan, sem lög mæla fyrir um, að sýslumenn og bæjarfógetar, sem hafa á hendi lögreglustjórn, fari jafnframt með dómsvald í héraði ... Er og beinlínis ráð fyrir því gert í 61. grein stjórnarskrárinnar frá 1944 ... að dómendur geti haft umboðsstörf á hendi. Ákvæðum 6. greinar Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis ... hefur ekki verið veitt lagagildi hér á landi. Breyta þau ekki þeirri lögbundnu skipan sem að framan var greind. Þar sem hinn áfrýjaði dómur var samkvæmt þessu kveðinn upp af héraðsdómara, sem til þess var bær að íslenskum lögum, verður hann ekki ómerktur af þeirri ástæðu sem hér er um fjallað ...““

Það má gera ráð fyrir því að ef frumvarp þetta, sem ég var að lesa greinargerð úr, hefði verið orðið að lögum þá hefði niðurstaða þessara dóma orðið önnur. En fordæmin eru fleiri þannig að ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá til að ég geti haldið áfram að fjalla um þetta.