Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Síðustu vikur hafa verið umhleypingasamar, kaldar og blautar. Ekkert okkar hefur farið varhluta af því að öfgar í veðurfari hafa verið miklar, frost og þíða til skiptis og mikil vatnaveður. Við þessi skilyrði skapast ýmsar náttúruvár og þar með talin ofanflóðahætta í formi skriða, krapaflóða og snjóflóða og viðbúið að slíkar öfgar í veðurfari muni aukast vegna hamfarahlýnunar á næstu árum.

Aðeins örfáum dögum eftir að Patreksfirðingar héldu minningarathöfn í lok janúar um þá sem fórust í krapaflóðunum fyrir 40 árum féll krapaflóð í Geirseyrargili, sama gili og hið fyrrnefnda 40 árum áður. Mikil mildi var að enginn var á ferli á svæðinu þegar flóðið féll og það var ekki stærra en raun bar vitni. Stuttu síðar féll annað krapaflóð á Bíldudalsveg. Norðan megin við Patreksfjörð, í Raknadalshlíð, féll snjóflóð nokkrum dögum áður. Í hlíðinni hafa fallið mörg snjóflóð á síðustu árum yfir veginn sem er fjölfarinn, en þar er fjarskiptum einnig ábótavant og símasambandslaust á löngum köflum. Þrátt fyrir að snjóflóð séu tíð í hlíðinni er hún ekki vöktuð sérstaklega eins og til að mynda Súðavíkurhlíð eða Flateyrarvegur. Þetta er ótækt og teflir fólki í óþarfa hættu.

Virðulegi forseti. Þau okkar sem búa í návígi við náttúruna og þær hættur sem þar geta skapast eiga ekki að þurfa að treysta á mildi örlaganna þegar líf okkar er í húfi vegna ofanflóðahættu eða annarrar náttúruvár. Öryggi og varnir þola enga bið og tafarlaust þarf að ganga í að tryggja öryggi fólks á þessum svæðum og öðrum svæðum þar sem þessi hætta er fyrir hendi. Það sama gildir um aðra öryggisþætti eins og fjarskipti.