Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

fundarstjórn forseta við atkvæðagreiðslu.

[14:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Fyrst forseti fagnar því að í umræðu um fundarstjórn forseta sé raunverulega verið að tala um fundarstjórn forseta, þá langaði mig aðeins að vekja athygli á einu sem gerðist hérna áðan í máli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kom upp í pontu. Hér erum við að tala um að verið er að væna í rauninni ríkisstjórnina og meiri hlutann á þingi um að vera að fara að setja lög sem stríða gegn stjórnarskrá. Hver eru viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra? Hann segir: Það er meirihlutavald hér á þingi, það ríkir meirihlutavald og það er meiri hlutinn sem ræður. Þið eruð að brjóta stjórnarskrána, já „fine“, en það er meiri hlutinn sem ræður. Ég óttast að meiri hlutinn hér á þingi átti sig ekki á því til hvers stjórnarskráin er. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðri öðrum lögum og tilgangur hennar er einmitt sá að veita meirihlutavaldinu aðhald og tryggja að ekki sé gengið á ákveðnar grundvallarreglur, aldrei, hvorki með meirihlutavaldi né öðru. Ég vildi bara vekja athygli á þessu.