Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Svona smá upprifjun á því af hverju við erum hér. Í greinargerð með frumvarpi til laga, í kaflanum „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar“, hefur ráðuneytið sagt að, með leyfi forseta: „… frumvarpið gefi ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrána.“ Við vinnslu málsins hefur það komið mjög skýrt og greinilega fram að þetta er ekki rétt. Ráðuneytið er búið að viðurkenna það og hefur komið með aukarökstuðning. Hvort hann stenst í rauninni nákvæmari skoðun eða ekki er ekki eitthvað sem við fáum mjög aðgengilegt mat á, af því að til að byrja með komst ráðuneytið, eða framkvæmdarvaldið, að þessari hrapallega röngu ályktun að ekkert í þessu frumvarpi stangaðist mögulega á við stjórnarskrá, við þau réttindi sem umsagnaraðilar bentu einmitt á að væru vandamál varðandi t.d. heilbrigðisvottorð, varðandi sjálfkrafa kæru, varðandi þjónustuskerðingu. Það er ýmislegt þarna sem er ákveðið inngrip í mannréttindi fólks. Og þegar ákveðið inngrip er leyfilegt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í réttindi fólks þarf að rökstyðja að inngripið stangist ekki á við mannréttindi og að inngrip í réttindi fólks séu málefnaleg.

Á þessu höfum við ekki fengið óháð mat, af því að, alla vega eins og ég lít á það, miðað við að ráðuneytið klúðraði gjörsamlega frumvarpinu til að byrja með: skilar því svona til þingsins, kemur síðan með uppfærðar röksemdafærslur eftir á, þá er það ekkert rosalega trúverðugt svona til að byrja með að það sé í fyrsta lagi bara vel unnið eða unnið af ákveðnum heilindum miðað við hver markmiðin eru. En markmiðin með þessum greinum eru augljóslega ákveðinn fælingarmáttur. Það er viljandi verið að taka þjónustu af fólki til þess bara að gera því lífið leitt. Það er ekkert rosalega góður grunnur til að byggja rökstuðninginn á, ekki á neinn hátt. Þú vilt ekkert rökstyðja það á heiðarlegan hátt hvort það gangi gegn stjórnarskrá að gera það. Það er bara mjög hlutdræg afstæða. Auðvitað drögum við það í efa, það er ekkert óeðlilegt við það.

Ég skil það alveg að aðrir, t.d. ríkisstjórnarflokkarnir, horfi á okkur sem ákveðna hlutdræga aðila líka. En þar bendum við aftur á móti á að við erum með haug af umsögnum sem benda á nákvæmlega það sem við höfum verið að segja. Það eru ekki okkar orð, það eru orð óháðra félagasamtaka úti um allt land sem gera athugasemdir við þetta; athugasemdir landlæknis, athugasemdir sveitarfélaga. Þetta eru ekki einhverjir aðilar undir stjórn Pírata, því fer fjarri, því að Píratar hafa ekki mikla stjórn á neinu hérna, því miður. Við erum ekki í ríkisstjórn eða í stjórnum út um allt og höfum skipað embættismenn fram og til baka, sem er kannski — já, skiljum það eftir í lausu lofti hvað það er.

Auk þessa þá er sagt að markmið frumvarpsins sé að bæta skilvirkni, að það sé að samræma íslensk lög við lög í samanburðarlöndum. Nú hef ég spurt aftur og aftur: Í hvaða landi finnur þú þessa grein? Ja, engu, er bara nokkurn veginn alltaf svarið, sem er rosalega skrýtið. Og varðandi skilvirknina. Hvað þýðir það t.d. að skerða þjónustuna? Það er verið að skerða þjónustu 30 dögum eftir synjun nema þú uppfyllir fullt af undanþáguskilyrðum. Allt í lagi. Hvað er eftir? Hversu stór hópur er eftir, sem er þá í rauninni sjálfkrafa að missa þjónustu vegna þess að hann uppfyllir ekki skilyrðin? Það er breytilegt eftir árum. En geturðu sett það í einhvers konar samhengi; hversu mikið þetta árið, hversu mikið hitt árið, hversu mikið að meðaltali yfir nokkur ár? — Ekki hægt. Þannig að við getum ekki einu sinni sagt að það sé verið að vinna út frá einhverjum skilvirkniaðstæðum hérna, nema kannski fyrir stjórnvöld, en ekkert endilega fyrir skjólstæðinga stjórnvalda, sem er fólk sem er að sækja um aðstoð, mögulega í neyð, og þá þurfum við að gæta að mannréttindum.