Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í yfirferð á þessu máli hef ég verið að benda á hvaðan við erum að koma í þetta ástand sem við erum að glíma við núna. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar áttaði fólk sig á því að alþjóðasamfélagið var alls ekki tilbúið í að glíma við þær afleiðingar sem t.d. stríð valda, að búa til flóttamenn. Alþjóðasamfélagið var bara alls ekki tilbúið til þess að sinna þeim hluta stríðsvandans. Í kjölfarið var farið í það að gera flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og þetta tengist líka mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar var reynt að leggja grundvöll fyrir því að þjóðir heimsins gerðu ákveðna yfirlýsingu og myndu skuldbinda sig til þess að virða ákveðin réttindi gagnvart borgurum, þ.e. að stjórnvöld myndu ekki beita borgara sína ofbeldi, bara svo það sé sagt beint. Það gekk svona upp og ofan á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og úr varð að lokum samt yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, mannréttindayfirlýsing, sem var ekki bindandi fyrir neinn. Hún var svona hvatning til þess að þjóðir myndu taka upp sínar útgáfur af þeirri mannréttindayfirlýsingu, hún var leiðbeinandi fyrir þjóðir heims: Vinsamlegast hugið að þessu. Evrópa var einna mest í sárum eftir seinni heimsstyrjöldina og tók þessari leiðbeiningu mun alvarlegar en ýmsar aðrar þjóðir og Evrópuþjóðir komu sér saman um að stofna Evrópuráðið, setja upp mannréttindasamning Evrópu, sem væri þá ekki bara yfirlýsing og leiðbeinandi heldur yrði hann bindandi að þjóðarétti og landsrétti þannig að borgarar allra landa í Evrópu sem ættu aðild að Evrópuráðinu væru búnir að fullgilda mannréttindasamning Evrópu og vonandi ganga lengra og lögfesta hann.

Ég er búinn að vera fara yfir greinargerð þess frumvarps sem fjallar um lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hérna í nokkrum ræðum hér að undanförnu. Það skiptir máli að við vitum hvaðan við erum að koma til að skilja af hverju þetta eru mjög mikilvæg atriði sem við erum að fjalla um hérna í nákvæmlega þessu máli, að við viðurkennum það, að við segjum það bara mjög skýrt og greinilega að mannréttindi eru til þess að stjórnvöld beiti ekki fólk á sínu yfirráðasvæði, ekki bara sína borgara eða sína ríkisborgara heldur fólk á sínu yfirráðasvæði, ofbeldi. Ég vil bara segja það. Hugtakið þarna á bak við er stærra, en kannski er auðveldast að segja það bara til að vera sem skýrastur hvað það varðar.

Ég er búinn að fara yfir ýmislegt varðandi þetta, hvað þjóðaréttur og landsréttur þýðir og hvort mannréttindasáttmálinn sé leiðbeinandi í landslögum eða í stjórnarskrá mismunandi landa og hvernig áhrif það hefur. Ég byrjaði á að lesa upp úr grein sem var skrifuð árið 1983. Þorgeir Þorgeirsson rithöfundur skrifaði grein um lögregluna í Reykjavík sem á árum áður hafði í ýmsum tilfellum bókstaflega beitt fólk ofbeldi, hálstaki og skilið fólk eftir örkumla og enginn var að gera neitt í þessu. Þessi rithöfundur skrifar grein í blöðin þar sem hann kallar á dómsmálaráðherra að gera eitthvað í málunum. Þar notaði hann svona skáldlegt orðalag og kallar lögregluna einkennisklædd villidýr, með tilliti til þess að þarna liggja örkumla einstaklingar, ungir menn, á spítala. Fyrir það var hann dæmdur fyrir brot á hegningarlögum, sem hann fór síðan með til Mannréttindadómstólsins sem hvað upp úr um að það væri brot á tjáningarfrelsi Þorgeirs að hafa slíka grein í íslenskum lögum með tilliti til mannréttindasáttmálans. (Forseti hringir.) Þannig að þar byrjaði ég á þessari umfjöllun. — Ég bið forseta um að setja mig á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram yfirferð minni.