Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég vind mér bara beint í efnið og held áfram þar sem frá var horfið. Ég er að fjalla um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um fresti sem voru settir inn í lögin árið 2016. Það sem ég ætla að byrja á að útskýra aðeins, til að geta útskýrt fyrstu gagnrýni mína á þetta ákvæði í lögunum, eru núgildandi lög. Það eru tvenns konar tímafrestir í lögunum sem sett voru 2016, annars vegar sem gilda um umsóknir sem til stendur að vísa frá, svokölluð Dyflinnar- og verndarmál, og hins vegar mál sem eru í efnismeðferð.

Þegar um Dyflinnar- og verndarmál er að ræða hafa stjórnvöld 12 mánuði til að klára málið, ella er umsóknin tekin til efnismeðferðar á Íslandi. Fólk fær viðtal og kannað er hvort það sé flóttamenn. Það hefur þá ekki verið gert á þessum 12 mánuðum af því að það stóð til að vísa málinu frá. Þegar mál fer í efnismeðferð er settur tímafrestur sem er 18 mánuðir og kveðið á um að ef málsmeðferðin tekur lengri tíma en það geti fólk átt rétt á svokölluðu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það er bara að mjög ströngum skilyrðum uppfylltum og ég ætla aðeins að lesa upp hver þessi skilyrði eru, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæði þessu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr.“ — Sé sem sagt ekki flóttamaður. — „Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum eru að:

a. tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd,

b. ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,

c. ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,

d. útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.“

Hvers vegna er ég að nefna þetta í samhengi við hitt ákvæðið þó að við séum í rauninni bara að tala um tímafresti í þessum Dyflinnar- og verndarmálum? Jú, vegna þess að þessir frestir eru orðaðir með ólíkum hætti. Þegar um 12 mánaða frestinn í Dyflinnarverndarmálum er að ræða er hann orðaður þannig — ég ætla bara að lesa það beint upp þannig að þetta sé allt skýrt — að í raun er það tíminn sem líður frá umsókn þangað til einstaklingur er fluttur úr landi. Það þarf því að flytja viðkomandi úr landi innan þessara 12 mánaða. Það er orðað svona:

„Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum …“

Endapunkturinn er ekki tilgreindur þarna og hefur það verið túlkað þannig í framkvæmd að átt sé við flutning.

Í hinni greininni, 74. gr., sem er þessi 18 mánaða frestur fyrir efnismeðferðarmálin, segir að ef útlendingur hefur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða þýði það að 18 mánaða fresturinn í efnismeðferðarmálum telst frá umsókn þangað til kærunefnd útlendingamála er búin að komast að niðurstöðu. Þetta þýðir að ef kærunefnd útlendingamála kemst að niðurstöðu innan 18 mánaða þá er það nóg og þá má flytja viðkomandi úr landi á grundvelli þess úrskurðar sem er synjun, algjörlega óháð því hversu lengi viðkomandi dvelur hér á landi. Þessir frestir voru settir inn ekki síst vegna mála barna sem vöktu mikla óánægju í samfélaginu þar sem, eins og við öll vitum, þarf styttri tíma til þess að börn hreinlega verði hluti af samfélaginu. Þau læra tungumálið, þau eignast vini, þau festa rætur og ég held að það séu bara flest sammála um að það sé í eðli sínu ómannúðlegt að rífa barn upp með rótum gegn vilja þess og að það sé okkar skylda að koma með öllum ráðum í veg fyrir að það sé gert. Nú var það tilgangurinn með þessum ákvæðum.

Nú er ég aðeins búin að skýra þetta. Þarna er sem sagt sitthvor leiðin til að reikna út þennan frest. — Þá er ég fallin á tíma. Ég held áfram í næstu ræðu minni og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.