Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar aðeins að fjalla áfram um fólk sem hefur fengið samþykkt alþjóðlega vernd í Grikklandi en flúið það verndarkerfi vegna þess að grísk stjórnvöld eru ekki í þeirri aðstöðu að þau geti boðið fólki upp á mannsæmandi þjónustu í verndarkerfinu. Í síðustu ræðu fjallaði ég um það hvernig aðgengi að húsnæði í Grikklandi væri það takmarkað að Rauði krossinn teldi yfirgnæfandi líkur vera á því að flóttafólk sem er endursent til Grikklands muni verða heimilislaust eða búa við óviðunandi aðstæður, þetta þrátt fyrir að það sé lagalega réttur til félagsþjónustu og þar á meðal húsnæðis. Sama má segja um heilbrigðisþjónustu sem lögum samkvæmt flóttafólk nýtur til jafns við gríska ríkisborgara. Reyndin er hins vegar önnur. Flóttafólkið hefur miklu minni og mun takmarkaðri aðgang að heilbrigðiskerfinu. Þetta bendir Rauði krossinn á vegna þess að íslensk stjórnvöld eru enn allt of gjörn á að senda fólk, sem kemur til Íslands eftir að hafa fengið samþykkta alþjóðlega vernd í Grikklandi, aftur til Grikklands í þessar óviðunandi aðstæður sem eru í rauninni orðnar sjálfstæður vandi til þess að flýja. Þetta hefur lengi verið gagnrýnt víða um lönd en reyndin er sú að úti um allt erum við að sjá umræðuna þróast á þann veg að það þurfi að breyta þessu, það þurfi að hætta þessum tíðu og almennu endursendingum á fólki til Grikklands.

Ég nefndi hér áðan að þýski stjórnlagadómstóllinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki í samræmi við stjórnarskrá Þýskalands að senda fólk í þessar ómannúðlegu aðstæður, það bara samrýmdist ekki kröfum stjórnarskrárinnar um að gera fólki kleift að lifa með reisn. En sama er uppi á teningnum víða um Evrópu þótt ekki hafi ákvörðun verið tekin með jafn afgerandi hætti og í tilviki Þýskalands. Þannig má t.d. líta til Norðurlandanna sem hafa nú ekkert ósvipað regluverk og Ísland en eru samt að taka umsóknir fólks til raunverulegrar einstaklingsbundinnar skoðunar. Þó að íslensk stjórnvöld segist líka gera það þá held ég að við þurfum ekkert að leita langt eftir dæmum til að sanna hið gagnstæða. Hvernig öðruvísi geta stjórnvöld lent í því að brottvísa t.d. flóttamanni í hjólastól eins og gerðist hér í haust þegar Hussein Hussein var ásamt fjölskyldu sinni tekinn upp í þotu og sendur til Grikklands? Í framhaldinu fengum við að sjá fréttir reglulega af því hvernig hann kom að luktum dyrum þegar hann reyndi að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Þetta er auðvitað framkoma sem íslensk stjórnvöld ættu ekki að leyfa sér og þetta samrýmist engan veginn þeirri virðingu fyrir mannréttindum sem ég held að við viljum öll að Ísland standi fyrir. Við þurfum bara að vilja að Ísland standi fyrir því gagnvart öllu fólki, ekki bara íslenskum ríkisborgurum heldur líka fólki sem hingað kemur á flótta.

Svona dæmi eru kannski ein af ástæðunum fyrir því að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur lagst gegn því að sækjast eftir sjálfstæðu sérfræðimati á því hvort ákvæði frumvarps þess sem við fjöllum um í dag standist stjórnarskrá og skuldbindingar í mannréttindamálum, vegna þess að endursendingum til Grikklands (Forseti hringir.) mun síst fækka verði þetta frumvarp að lögum og mannréttindi fólks verða áfram fótum troðin við þær brottvísanir.