Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:09]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram yfirferð minni á umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta svokallaða útlendingafrumvarp. Ég er komin hér í lið II, með leyfi forseta, athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Þá er farið í gegnum greinarnar, eina af annarri. 1. gr.:

„Í b-lið 1. gr. er lögð til sú breyting að eftirfarandi texta verði bætt við 25. tölul. 3. gr. laganna, að með umsækjanda um alþjóðlega vernd sé ekki átt við útlending sem fengið hefur endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi. Fram kemur að þetta sé lagt til í því skyni að taka af allan vafa hvað þetta varðar og tryggja samræmda framkvæmd laganna og túlkun ákvæða þeirra. Rauði krossinn leggst gegn þessari tillögu enda er tilgangur hennar sá að skerpa á heimildum stjórnvalda til að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd grundvallarþjónustu eftir að þeim hefur verið birt lokasynjun á umsókn sinni. Nánar er gerð grein fyrir afstöðu Rauða krossins til þjónustusviptingarinnar í umfjöllun um 6. gr. frumvarpsins.“

2. gr., með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki. Þá er gerð sú krafa að greinargerð vegna kæru berist kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framangreindu munu umsækjendur í málum er falla undir 36. gr. útlendingalaga, að meginstefnu svokölluð Dyflinnar- og verndarmál, ekki eiga kost á að nýta sér almennan 15 daga kærufrest til ákvörðunar um framhald máls, en í framkvæmd hafa umsækjendur gjarnan nýtt sér umræddan frest. Tvenns konar ástæður liggja að jafnaði að baki því.

Annars vegar eru ákvarðanir Útlendingastofnunar birtar og afhentar umsækjendum á íslensku og ekki þýddar á önnur tungumál, en gera má ráð fyrir að lengd ákvörðunar í málum af þessu tagi sé 10–20 blaðsíður að jafnaði. Birting ákvörðunar fer nú fram á þann veg að ákvörðunin er ekki birt fyrir umsækjanda sjálfum, heldur send löglærðum talsmanni hans í gegnum forritið Signet Transfer, en hvorki lögregla né fulltrúi Útlendingastofnunar sér um framkvæmd birtingar. Í kjölfarið þarf talsmaður að bóka fund ásamt túlki með umsækjanda til að skýra forsendur ákvörðunarinnar en slíkt er í flestum tilvikum ekki hægt að gera samdægurs. Á umsækjandi því ekki kost á að fá munnlegar skýringar á niðurstöðu máls við birtingu.

Reynsla Rauða krossins af talsmannaþjónustu hefur verið sú að umsækjendur óska oft á tíðum eftir ráðgjöf hjá talsmanni að lokinni birtingu til að fá efnislega útskýringu á niðurstöðu ákvörðunar og í framhaldi að ræða næstu skref. Að mati Rauða krossins er frestur til umhugsunar um kæru nauðsynlegur og sjálfsagður til að gefa umsækjendum tækifæri til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunarinnar og taka upplýsta ákvörðun um kæru.“