Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Eins og ég vék að í síðustu ræðu þá stunda íslensk stjórnvöld það enn af miklum móð að endursenda fólk til Grikklands sem þar hefur hlotið alþjóðlega vernd þrátt fyrir að allt bendi til þess að með því sé verið að senda fólk í aðstæður þar sem ekki er hægt að tryggja því að lifa með reisn. Það er ekki hægt að tryggja mannúð, ekki hægt að tryggja grunnþjónustu. Grísk stjórnvöld ráða einfaldlega ekki við að tryggja aðgang að heilbrigðisþjónustu eða aðgengi að húsnæði og á þetta hafa hjálparsamtök náttúrlega ítrekað bent. Rauði krossinn sendi t.d. í apríl 2022 frá sér samantekt um aðstæður flóttafólks í Grikklandi sem allsherjar- og menntamálanefnd fékk í hendurnar við umfjöllun um þetta frumvarp og fékk einmitt í tengslum við þetta frumvarp vegna þess að þessi framkvæmd mun síður en svo leggjast af verði þetta frumvarp samþykkt og gert að lögum.

Þar með er kannski komin ein af skýringunum á því að stjórnarliðar hafa ekki verið til í að láta fara fram athugun á samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og skuldbindingar í mannréttindamálum, vegna þess að ef grannt yrði skoðað kæmi auðvitað í ljós að ýmislegt í þessari framkvæmd og margt við þær breytingar sem frumvarpið mun hafa í för með sér, verði það að lögum, stenst ekki þær skuldbindingar sem Ísland hefur gert á sviði mannréttindamála.

Hvað varðar endursendingar til Grikklands þá nefndi ég hér áðan að þýsk stjórnvöld hefðu t.d. hætt að endursenda til Grikklands í ljósi aðstæðna. Það féll dómur hjá stjórnskipununardómstóli Þýskalands þannig að stjórnvöldum var ekki lengur fært að senda fólk þangað og hafa síðan tekið mál fólks í þessari stöðu til efnismeðferðar í tugþúsundavís.

Ég fjallaði hér áðan um það að þrátt fyrir að grísk lög mæli fyrir um jafnan aðgang flóttafólks og grískra ríkisborgara að heilbrigðiskerfinu bendi Rauði krossinn á að ekki sé um raunverulegt aðgengi flóttafólks að því kerfi að ræða og sömuleiðis að grísk lög kveði á um jafnan rétt flóttafólks til félagslegs stuðnings, þar á meðal húsnæðis. Reyndin væri hins vegar sú að það væru yfirgnæfandi líkur á því að flóttafólk sem væri endursent til Grikklands yrði húsnæðislaust vegna þess að þessi lagalegi réttur væri einfaldlega ekki að ná fram að ganga í reynd. Flóttafólk hefði ósköp einfaldlega ekki sama aðgengi að húsnæði og almenningur þar í landi og mætti ýmsum hindrunum og vegna þessa sætti það alvarlegri mismunun stöðu sinnar vegna.

Þetta eru aðstæðurnar sem biðu t.d. fólksins sem hæstv. dómsmálaráðherra leigði þotu undir í haust til að framkvæma stærstu fjöldabrottvísun sögunnar, fólk sem héraðsdómur komst síðar að þeirri niðurstöðu að ætti heimtingu á efnismeðferð en ráðherrann vildi senda úr landi áður en til þess kæmi. Í þeim hópi voru m.a. einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu eins og fólk sem er fatlað og fær engan veginn þá þjónustu sem því ber í Grikklandi. Ekki það að heilbrigðis- eða félagsþjónusta í þágu þessa hóps sé beysin á Íslandi en þá er hún þó skömminni skárri en í Grikklandi, eins og við sáum á myndum sem bárust frá þeim sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sturtaði á götuna í Grikklandi núna í haust.