Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þegar fólk hefur flúið stríð í heimalandi, ofsóknir, misneytingu, ofbeldi, náttúruhamfarir og allt það sem kemur fólki í þá stöðu að það leggst á flótta, og fær skjól, þá vill því miður brenna við að skjólið sé ekki alltaf raunverulegt. Þannig háttar til um það fólk sem flúið hefur frá löndunum sunnan við Evrópu og sett fót fyrst niður í Grikklandi á leið sinni til Evrópu, að hafi það fengið umsókn sína um alþjóðlega vernd samþykkta af grískum stjórnvöldum þá er reyndin sú að verndin stendur raunverulega ekki undir nafni. Á þetta hefur ítrekað verið bent árum saman. Hér er ég með fyrir fram mig nýlegt innlegg í þá umræðu, samantekt Rauða krossins á Íslandi frá því í apríl um aðstæður flóttafólks í Grikklandi sem komið var til allsherjar- og menntamálanefnd þegar hún var að fjalla um frumvarpið sem við ræðum hér í dag. Það var gert vegna þess að í frumvarpinu, eins og í lögunum, er meginreglan nánast sú að fólk sem fengið hefur efnismeðferð í öðru landi fái ekki efnismeðferð hér á landi heldur sé bara endursent í verndarkerfi þess lands sem það kom fyrst inn í, alveg óháð því hverjar aðstæðurnar eru þar í landi. Stjórnvöld á Íslandi hafa ítrekað haldið því fram að verndarkerfið á Grikklandi sé vel í stakk búið til að tryggja flóttafólki mannsæmandi líf en eins og er mjög augljóst af lestri þessarar skýrslu Rauða krossins er það bara alls ekki reyndin. Það sama gæti fólk náttúrlega séð ef það fylgdist með þróuninni víða í nágrannalöndunum, eins og í Þýskalandi þar sem alveg er hætt að endursenda fólk inn í þessar aðstæður eða á Norðurlöndum, sem hvert með sínum hætti eru farin að skoða miklu nánar, með einstaklingsbundnum hætti, hver staða fólks yrði ef það færi í verndarkerfið í Grikklandi. Þannig er t.d. varla hægt að bjóða fólki með fötlun eða langvinna sjúkdóma upp á að fara þangað, enda kom fram í skýrslu Rauða krossins að aðgengi að heilbrigðisþjónustu væri lítið og mjög takmarkað fyrir flóttafólk þó að það ætti að heita að vera undir alþjóðlegri vernd þar í landi. Eins eru miklar líkur á því að fólk í þessari stöðu sé húsnæðislaust þar sem lagalegri jafnstöðu þess er ekki fylgt eftir þannig að hún sé raunverulega til staðar.

Í skýrslunni er síðan fjallað um hvernig aðgengi að atvinnu í Grikklandi er mjög takmarkað. Þetta er atriði sem við höfum ítrekað fjallað um í tengslum við þetta frumvarp, en ein einfaldasta leiðin til þess að létta bæði undir verndarkerfinu hér á Íslandi og móttökukerfinu er einfaldlega að hleypa fólki hraðar og betur inn í landið og veita því eitthvert bráðabirgðaatvinnuleyfi þannig að það geti séð sér farborða sjálft. Staðan í Grikklandi er síst skárri.