Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um stöðu fólks sem er búið að fá umsókn um alþjóðlega vernd samþykkta í Grikklandi, en það kerfi er svo brostið að einstaklingar fá ekki nauðsynlega grunnþjónustu og fara þess vegna áfram á flótta, komast til Íslands og sækja hér um alþjóðlega vernd. Þá er viðkvæði íslenskra stjórnvalda oftar en ekki að neita að taka umsókn þeirra til efnismeðferðar og vísa viðkomandi beinustu leið aftur til Grikklands eins og er heimilt samkvæmt sameiginlegu regluverki innan Evrópu. Það er svo fjarri því að vera einhver skylda, eiginlega þvert á móti, því að grísk stjórnvöld eru einfaldlega ekki í þeirri aðstöðu að geta staðið undir þjónustu við þann fjölda sem er innan hæliskerfisins þar. Ef við ætluðum að vera góðir bandamenn Grikkja þá gætu íslensk stjórnvöld snúið straumnum við og gert eins og ríkisstjórnir annarra landa hafa gert við og við, þegar borist hafa sérstök neyðarköll frá Grikklandi, og boðið fólki að flytjast úr gríska kerfinu yfir í hið íslenska. Í það minnsta væri hægt að láta af þessum endursendingum sem eru allt of algengar.

Ég er búinn að fara yfir nokkur atriði úr samantekt Rauða krossins á Íslandi frá því í apríl 2022, um aðstæður flóttafólks í Grikklandi. Þau atriði sem ég hef tæpt á til þessa snúa annars vegar að heilbrigðiskerfinu og þeirri staðreynd að þrátt fyrir að lögin kveði á um jafnan aðgang flóttafólks og grískra ríkisborgara að heilbrigðiskerfinu í Grikklandi þá sé reyndin allt önnur og aðstæður flóttafólks miklum mun verri. Síðan hef ég fjallað um takmarkað aðgengi flóttafólks að húsnæði í Grikklandi þrátt fyrir að grísk lög kveði á um jafnan rétt flóttafólks til félagslegs stuðnings og þar á meðal húsnæðis. Reyndin er sú að flest fólk sem er endursent til Grikklands býr við húsnæðisleysi og á grundvelli þess hefur t.d. þýska ríkisstjórnin hætt endursendingum, vegna þess að það samrýmist einfaldlega ekki mannréttindaskuldbindingum að senda fólk í þessar aðstæður.

Mig langar að fjalla hér um aðgengi að atvinnu í Grikklandi fyrir flóttafólk. Hér kemur fram að í rauninni gangi kerfið í Grikklandi gegn lagalegum réttindum fólks til að stunda þar atvinnu. Svo dæmi sé tekið er vísað í skýrslu þar sem fram kemur að flóttafólk sé í raun útilokað frá vinnu hjá einkaaðilum vegna þess að stærstu bankarnir synja flóttafólki ítrekað um að fá bankareikning og kemur það aftur í veg fyrir að það geti tekið á móti launagreiðslum. Þetta er nú að verða margtuggið, en þrátt fyrir að grísk lög mæli fyrir um jafnan rétt flóttafólks og grískra ríkisborgara að vinnumarkaðnum er reyndin sú að aðgangur flóttafólks að honum er nær ómögulegur. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að þegar félagslegt kerfi, eins og kerfið utan um fólk sem hefur fengið umsókn um alþjóðlega vernd samþykkta, er komið að þolmörkum þannig að það getur ekki lengur veitt nauðsynlega grunnþjónustu, þá er ein af leiðunum til þess að létta undir með kerfinu að gera fólkið fjárhagslega sjálfbært sem nýtir sér þjónustu þess og stólar á hana. Einfaldasta leiðin er oft að leyfa fólki einfaldlega að vinna. Það er ómögulegt á Grikklandi.