Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er að fara yfir c-lið 8. gr. frumvarpsins þar sem verið er að lögfesta það sem hingað til hefur verið úrskurðað sem ólögmæt framkvæmd Útlendingastofnunar. Í greinargerð með þessu ákvæði í frumvarpinu er því haldið fram að verið sé að skýra túlkun á þeim frestum sem eru í lögunum. Ég ætla að lesa upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Hins vegar er talin þörf á að skýra betur hvenær töf á afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd er á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Hvorki gildandi ákvæði né skýringar við það veita stjórnvöldum nánari leiðbeiningar um hvernig beri að meta slík tilvik. Í framkvæmd hefur kærunefnd útlendingamála túlkað orðalagið í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Ég vil aðeins skýra þetta á mannamáli. Í núgildandi lögum segir að það þurfi að taka málið til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá því að umsóknin var fyrst lögð fram nema tafir á málsmeðferð séu á ábyrgð umsækjanda, sem hljómar rökrétt. Það er ekki rétt, sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að tilgangurinn sé að skýra túlkunina á því hvað séu tafir á ábyrgð umsækjanda vegna þess að það hefur þegar verið gert. Kærunefnd útlendingamála hefur með úrskurðum sínum skýrt hvað geta talist vera tafir á málsmeðferð á ábyrgð umsækjanda. Það hefur hún gert með ýmsum úrskurðum og einhverjir hafa farið fyrir dómstóla, samanber mál Hussein Husseins sem vannst fyrir dómi fyrir mjög skömmu síðan og ég mun fara yfir á eftir, því að það er ágætisdæmi, þar sem meira að segja kærunefndin staðfesti mat Útlendingastofnunar á því að um væri að ræða tafir á ábyrgð umsækjanda.

Hér er sem sagt ekki verið að skýra ákvæðið heldur er verið að lögfesta túlkun Útlendingastofnunar. Það sem kærunefnd útlendingamála hefur sagt kemur t.d. fram hér:

„… ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á,“ — þá fellur fresturinn niður og hann missir rétt — „nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Kærunefndin er búin að komast að þeirri niðurstöðu að ef — segjum að umsækjandi hafi tafið mál sitt í einn dag á fimmta mánuði þegar hann panikkaði og faldi sig eftir ákvörðun Útlendingastofnunar. Þegar 12 mánuðir eru liðnir og ekki er enn búið að flytja hann úr landi — hann felur sig eftir að hann fær niðurstöðu Útlendingastofnunar og lætur ekki ná í sig í heilan sólarhring. Lögmaðurinn hans þarf að finna hann og útskýra ákvörðunina fyrir honum. Ákvörðunin er kærð og kærunefnd útlendingamála kemst að niðurstöðu mánuði seinna. Eftir sex mánuði er úrskurður kærunefndar kominn til að staðfesta ákvörðun um að viðkomandi þurfi að fara til Svíþjóðar af því að Svíþjóð beri ábyrgð á málinu. Viðkomandi gerir ekkert frekar til þess að tefja mál sitt og það líða sex mánuðir í viðbót þar sem stjórnvöld hefðu getað flutt hann, eins og kærunefndin kemst að orði: „… ljóst að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“ Þarna myndi kærunefndin telja að 12 mánaða málsmeðferð væri ekki á ábyrgð umsækjanda þó að hann hefði horfið í einn dag. Ég held að öllum hljóti að finnast þetta sanngjarnt og eðlilegt. Það er á ábyrgð stjórnvalda að klára málið innan 12 mánaða. Með þessari lagabreytingu er í raun verið að tryggja að Útlendingastofnun geti túlkað hvað sem gerist — í rauninni er henni algerlega í sjálfsvald sett að túlka það að fluga hafi flogið inn um glugga umsækjanda á þriðja degi umsóknarferlisins sem tafir á hans ábyrgð. Til hvers? Á þetta að bæta skilvirkni? Nei, þetta meira að segja léttir þeirri pressu af stjórnvöldum að klára málið innan 12 mánaða. Þetta snýst um að níðast á flóttafólki algerlega að ástæðulausu. Þetta eykur enga skilvirkni og sparar enga peninga úr ríkissjóði, (Forseti hringir.) straumlínulagar ekki neitt, samræmir framkvæmd okkar ekki við nein önnur ríki og brýtur bara á rétti flóttafólks algerlega að ástæðulausu.