Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er hér að ræða langlokuna sem er verið að setja inn í lögin með c-lið 8. gr. frumvarpsins til þess að eyðileggja 12 mánaða frests ákvæði sem leggur þá skyldu á stjórnvöld að klára mál og flytja fólk úr landi innan 12 mánaða frá umsókn, annars öðlist fólk rétt til þess að málið verði tekið til skoðunar hér á landi. Við erum að tala um mál sem umsögninni er vísað frá. Hún er í rauninni ekki skoðuð. Það er ekki skoðað hvort þú sért flóttamaður heldur er ákveðið að þú eigir fara til Grikklands, sem dæmi, eða Ungverjalands eða Ítalíu.

Í núgildandi lögum rofnar þessi 12 mánaða frestur ef umsækjandi sjálfur er talinn bera ábyrgð á töfum málsins. Sú túlkun sem hefur orðið til í framkvæmd á því er nokkuð skýr hjá kærunefnd útlendingamála og enn skýrari núna með nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þessi skýring hugnast Útlendingastofnun ekki og ekki heldur hæstv. dómsmálaráðherra og að því er virðist ekki meiri hlutanum hér á þingi.

Það er nefnilega þannig að kærunefndin hefur sett þann ramma utan um þetta að, eins og orðað er hreinlega í greinargerð við ákvæðið í frumvarpinu, hafi tafirnar verið óverulegar af hálfu umsækjanda og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi innan 12 mánaða, þrátt fyrir þessar óvenjulegu tafir af hans hálfu, verði hann ekki talinn sjálfur bera ábyrgð á töfum málsmeðferðinni þannig að hann missi rétt til áheyrnar.

Ég ætla að lesa hérna upp úr dómi sem féll fyrir nokkuð stuttu síðan. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ákveðið að lengja þjáningar flóttafólks, sem nota bene er staðfest að sé flóttafólk. Það er búið að fá viðurkennda stöðu flóttamanns en dómsmálaráðherra finnst að þau eigi að vera í Grikklandi frekar en hér þó að umsækjandi sé í hjólastól og augljóst sé að hann fái ekki þá þjónustu og aðstoð sem hann þarf á að halda í Grikklandi. Útlendingastofnun kemst að þeirri niðurstöðu og kærunefnd útlendingamála kemst að þeirri niðurstöðu að það sé bara fínt fyrir hann að vera þar. Málsmeðferðin tók hátt í tvö ár þannig að hann ætti að fá efnismeðferð samkvæmt lögunum, nema Útlendingastofnun og kærunefndin eru sammála um að umsækjandi hafi sjálfur borið ábyrgð á töfum á málsmeðferðinni.

Nú ætla ég að segja ykkur hvernig, vegna þess héraðsdómur var ekki sammála, með leyfi forseta:

„Með reglu 2.málsl. 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga er tekið af skarið um að ef meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd tekur meira en eitt ár skuli Útlendingastofnun taka umsókn til efnismeðferðar. Óumdeilt er með aðilum máls þessa að fresturinn skuli talinn hefjast er umsókn um alþjóðlega vernd berst fyrst íslenskum stjórnvöldum og að honum lýkur þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin. Reglan sætir þeim fyrirvara að skv. 2. mgr. 36. gr. getur nefndur eins árs frestur orðið lengri ef tafir á afgreiðslu umsóknar eru á ábyrgð umsækjandans. Í þessu máli liggur fyrir að umsókn stefnanda um alþjóðlega vernd barst stjórnvöldum 8. desember 2020 og að stefnandi var fluttur til viðtökuríkisins, Grikklands, 3. nóvember 2022. Þannig liggur fyrir að meðferð málsins tók alls næstum tvö ár.“

Nú ætla ég að biðja fólk um að taka sérstaklega eftir þeim dagsetningum sem ég nefni og reyna að stilla þeim upp í huganum og setja þær í samhengi. Ég ætla að byrja á að lesa lögfræðilegatextann og svo skal ég reyna að fara yfir hann á mannamáli, með leyfi forseta:

„Stefnandi krafðist þess með bréfi til kærunefndarútlendingamála 9. desember 2021 að mál hans yrði endurupptekið með vísan til þess að þá var meira en eitt ár liðið frá því að stjórnvöldum barst fyrst umsókn hans um alþjóðlega vernd.“

Ég ætla að gera hlé hér af því að ég næ ekki halda áfram fyrr en í næstu ræðu en við skulum muna þetta: Umsækjandi sækir um 8. desember 2020. Þann 9. desember 2021 er hann enn þá staddur hér á landi, ári og einum degi síðar, óskar eftir endurupptöku vegna þess að 12 mánuðir eru liðnir. Ég óska eftir að fá að fara aftur á mælendaskrá.