153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Undanfarna daga höfum við í þessari umræðu dregið fram ýmsa þætti frumvarpsins sem stangast á við ýmsar mannréttindaskuldbindingar, draga úr réttindum barna, ganga gegn barnasáttmálanum, standast mögulega ekki stjórnarskrá. Allt þetta eru atriði sem koma fram í umsögnum við þetta útlendingafrumvarp. En meiri hlutinn bregst ekki við þeim athugasemdum og gengur meira að segja svo langt að neita að láta fara fram óháða úttekt á samræmi frumvarpsins við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda, og samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá. Ráðuneytið gerði ekkert slíkt mat áður en frumvarpinu var skilað til þingsins og meiri hlutinn er áfram í sama leik; að láta eins og það að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á fólk á flótta sé eitthvað sem þurfi ekki að skoða út frá þessum skuldbindingum. Gott að halda þessu til haga svona af og til.

Það sem ég hef verið að fjalla um hér í síðustu ræðum snýr einmitt að því hvernig íslensk stjórnvöld eru í framkvæmd að senda einstaklinga inn í ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi, fólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd. Fólk sem hefur fengið umsókn sína um alþjóðlega vernd samþykkta af grískum stjórnvöldum býr nefnilega við verulega bág kjör. Þetta hefur ítrekað komið fram og í hvert sinn sem umræða um þetta spinnst hér á þingi þá keppast dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hver svo sem verður fyrir svörum, það fer nú bara eftir því hvort búið sé að skipta um eða ekki, þá keppast ráðherrarnir við að segja að auðvitað endursendi Ísland ekki til Grikklands, sem er rétt vegna þess að um margra ára skeið hefur endursendingum á fólki sem ekki er með samþykktar umsóknir verið hætt. Hins vegar endursendir Ísland fólk sem er með samþykktar umsóknir í Grikklandi. Þessi skollaleikur íslenskra stjórnvalda, að láta eins og þarna sé einhver reginmunur á, það er farið að slá dálítið í hann.

Hér hefur verið vísað til samantektar Rauða krossins á Íslandi frá apríl 2022 þar sem fjallað er um aðstæður flóttafólks í Grikklandi þar sem segir að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi búi við ófullnægjandi og ómannúðlegar aðstæður þar í landi og að mati Rauða krossins ætti það að leiða til þess að umsóknir þeirra séu teknar til efnismeðferðar hér á landi. Þetta er niðurstaða sem Rauði krossinn er ekkert einn í að komast að. Eins og ég nefndi hér áðan var það niðurstaða stjórnlagadómstóls Þýskalands að hætta endursendingum til Grikklands einmitt af þeim ástæðum að mannréttindi fólks væru ekki tryggð. Það er kannski í takt við tregðu meiri hlutans við að láta fara fram mat á samræmi þessa frumvarps við stjórnarskrá að stjórnvöld hafa ekki fengist til að endurskoða þessa stefnu sína um að taka umsóknir fólks ekki til efnismeðferðar heldur brottvísa beint í ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi.