Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:12]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var hérna í fyrri ræðu að gera grein fyrir umsögn Læknafélags Íslands og, með leyfi forseta, langar mig að halda áfram þar sem frá var horfið:

„„Genfaryfirlýsing Alþjóðafélags lækna bindur lækninn með orðunum: „Ég mun hafa heilsu sjúklinga minna að leiðarljósi framar öllu öðru“ og í Alþjóðasiðareglum lækna er því lýst yfir, að „Læknir skal aðeins gera það sem er sjúklingnum fyrir bestu, þegar hann veitir læknisþjónustu.““

Sé útlendingur sem vísa á úr landi tilneyddur til að sæta slíkri skoðun, má gefa sér að viðkomandi sé andvígur því að vera vísað úr landi. Oft hafa einstaklingar í slíkri stöðu flókin vandamál, gjarnan á grunni áfallastreitu, og verið er að vísa þeim aftur í aðstæður þar sem þau telja lífi sínu og heilsu ógnað. Með því að gera ofangreint vottorð þyrfti læknir að telja að slík brottvísun úr landi sé viðkomandi fyrir bestu, sbr. ofangreindar siðareglur. Virðing fyrir manneskjunni og gagnkvæmt traust er grundvöllur læknisstarfsins. Framkvæmd sem þessi vinnur gegn hagsmunum og mannréttindum sjúklinga, og teljum við hana stangast á við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna.

2. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ekki sé krafist dómsúrskurðar áður en útlendingur er neyddur til að sæta heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn. Til samanburðar má nefna 2. mgr. 78. gr. sakamálalaga, þar sem segir: „Líkamsrannsókn eða geðrannsókn skv. 77. gr. skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á.“ Í tilfelli sakborninga í sakamálum þarf þannig dómsúrskurð til að gera líkamsrannsókn á viðkomandi. Í nýju frumvarpsdrögunum hefur lögregla einfaldlega heimild til að skylda viðkomandi til þess. Neiti útlendingur að undirgangast slíka rannsókn er lögreglu heimilt, skv. frumvarpi, að sækja dómsúrskurð til þess. Að okkar mati ætti þessu að vera öfugt snúið, að í öllum tilfellum þurfi að afla dómsúrskurðar nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á. Mannréttindi útlendinga ættu ekki vera minni en mannréttindi sakborninga á Íslandi.

3. Í frumvarpinu er margt óljóst um framkvæmd heilbrigðisskoðana og læknisrannsókna. Hvaða læknar eiga að sinna þeim skoðunum og tilheyrandi útgáfu vottorða? Þarf í ákveðnum tilfellum að leita álits sérfræðilæknis? Hvað ef læknir telur viðkomandi ekki vera hæfan til að vera fluttur úr landi? Hvað ef tveir læknar eru ósammála um slíkt, sbr. brottvísun þungaðrar konu árið 2019? Hvaða ábyrgð ber læknir sem ritar slík vottorð?

4. Í 19. gr. frumvarpsins segir: „Með heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er átt við mat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi.“ Ofangreindur texti er óljós og býður upp á mjög víða túlkun á því hver geti framkvæmt slíkt mat. Aðeins heilbrigðisstarfsmaður með starfsleyfi skv. lögum um heilbrigðisstarfsmenn ætti að geta framkvæmt slíkt mat og liggur í orðanna eðli að læknisrannsókn verður aðeins framkvæmd af lækni. Sé ætlunin sú að gera heildrænt mat á því hvort heilsu einstaklings sé stefnt í hættu með framkvæmd brottvísunar, ætti að koma skýrt fram að slíkt skuli vera vottað af lækni.

Stjórnir LÍ og FL telja að margir ágallar séu á 19. gr. frumvarpsins, en allra mikilvægast er þó að framkvæmd á 19. gr. af hálfu lækna er ekki í samræmi við siðareglur sem læknar eru skuldbundnir til að starfa samkvæmt. Jafnframt sé með frumvarpinu boðuð heimild til að brjóta gegn mannréttindum fólks í mjög viðkvæmri stöðu. Stjórnir LÍ og FL hvetja dómsmálaráðherra til að gera verulegar breytingar á 19. gr. áður en frumvarpið er lagt fram. Hér er um flókin siðfræðileg álitamál að ræða og hvetjum við ráðherra til að leita ráðgjafa frá sérfræðingum á sviði siðfræði í heilbrigðisþjónustu við endurskoðun 19. gr. frumvarpsins.“

Af þessu má ráða að hér er ekki nóg að gert. Hér þarf að taka betur til og tryggja hagsmuni, heilbrigðishagsmuni fólks sem til stendur að vísa úr landi.