Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:23]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi og var komin að 6. gr. þar sem farið er yfir gagnrýni á þá grein. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í umsögnina sjálfa:

„Upptalning ákvæðisins um þá persónulegu eiginleika eða aðstæður sem taka þarf tillit til við meðferð máls og geta leitt til þess að einstaklingur teljist sérstaklega viðkvæmur í skilningi laga um útlendinga er ekki tæmandi […] mat á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. gr. laga um útlendinga skuli fara fram með aðstoð viðeigandi sérfræðinga. Líkt og sjá má í umfjöllun Rauða krossins um 2. gr. frumvarpsins hér að framan hefur félagið ítrekað gert athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á stöðu umsækjenda og hugsanlegum sérþörfum líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Hefur reynslan sýnt að stofnunin vanræki skyldu sína til að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn, jafnvel þegar vísbendingar eru uppi um að einstaklingar teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í fjölda tilvika hefur Útlendingastofnun látið hjá líða að bíða eftir mikilvægum heilbrigðisgögnum áður en ákvörðun er tekin í máli sem leiðir til þess að umsækjendur eru ekki með réttu metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu, auk þess sem sjaldnast er óskað eftir aðstoð sérfræðinga við slíkt mat, en Rauði krossinn telur slíkt fálæti ekki standast áskilnað laganna. Þá hefur kærunefnd útlendingamála metið sem svo að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu. Afleiðingar þessarar vanrækslu Útlendingastofnunar geta verið alvarlegar þegar umsækjendur sem í raun falla undir hugtakaskilgreiningu 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga fá ekki viðurkenningu á stöðu sinni þar sem ekki hefur farið fram rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Þrátt fyrir nefndar undantekningar á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu telur Rauði krossinn í ljósi framangreinds að leiða megi líkur að því að breytingin muni samt sem áður koma harðast niður á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu (svo sem fötluðu fólki, fórnarlömbum mansals, pyndinga og annars alvarlegs ofbeldis), enda hefur Útlendingastofnun túlkað skilgreininguna á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu verulega þröngt. Að sama skapi eru möguleikar þeirra til að yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu endanlegrar ákvörðunar mun minni en umsækjenda í sterkari stöðu. Einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafa þar að auki aukna þörf á tryggu húsnæði og heilbrigðisþjónustu.

Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist.“