Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:33]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér áðan við atkvæðaskýringu. Mér gafst ekki tækifæri til að tjá mig í fundarstjórninni sem átti sér stað eftir að dagskrárliðnum störf þingsins lauk, enda var ég upptekin. Það sem mér finnst svolítið fyndið við þetta er að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er enginn nýgræðingur þegar kemur að stjórnmálum, bara alls ekki. Hann hefur næstum því setið lengst á þingi eða er alla vega á meðal þeirra sem eru að fara að slá aldursmet hérna inni, þ.e. setumetið, hvað þeir hafa setið lengi. Ég held að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra geri sér fyllilega grein fyrir því að dagskrárvaldið liggur hjá meiri hlutanum. Ekki erum við með dagskrárvaldið hérna, þvert á móti höfum við verið að leggja fram tillögur á hverjum einasta þingfundi núna í viku, og rúmlega það, um að færa útlendingafrumvarpið neðar á dagskrá þannig að önnur mál komist að.

Krafa Pírata er frekar skýr og hún er mjög lýðræðisleg. Hún er til að mynda að gerð verði úttekt á því hvort ákvæði þessa lagafrumvarps samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og þar með alþjóðaskuldbindingum sem Ísland er aðili að. Ég myndi ekki segja að þetta væri erfið krafa eða dýrkeypt. Þetta er rosalega lýðræðislegt og ég þarf ekkert að fara út í þá sálma um hvernig ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill vera ef hún þröngvar einhverjum lögum í gegn þvert á vilja og sátt þingmanna sem hér sitja. Vissulega eru þeir þingmenn í minni hluta sem ekki eru hlynntir þessu frumvarpi, en þeir eru samt sem áður þingmenn og skoðun þeirra og athugasemdir ættu að hafa eitthvert vægi í umræðunni.

Að því sögðu þá hef ég farið frekar ítarlega yfir 2. og 6. gr. frumvarpsins, en það eru ekki einu lagaákvæðin sem valda mér áhyggjum heldur eru það líka 7. og 8. gr. frumvarpsins. Mig langar í næstu ræðu minni að víkja að umsögnum umsagnaraðila hvað varðar þessi tvö lagaákvæði. Mig minnir að ég hafi farið frekar vel og ítarlega yfir það í gærkvöldi hvernig ákvæði þessa frumvarps samræmast ekki meginreglum stjórnsýsluréttarins, þar á meðal réttmætisreglunni, að ákvarðanir þurfi að vera teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Þau samræmast heldur ekki jafnræðisreglunni, sem er lögfest meginregla í 11. gr. stjórnsýslulaga, og veita heldur ekki aðilum máls, þ.e. þeim umsækjendum sem eru með mál til meðferðar hjá til að mynda Útlendingastofnun, færi á að nýta andmælaréttinn sinn. Eins og ég fór mjög ítarlega yfir í gær þá þarf að uppfylla nokkur skilyrði til þess að aðili geti virkjað andmælaréttinn sinn. Í þessu frumvarpi er aðilum eiginlega bara ekki gefið færi á að virkja andmælaréttinn sinn, sem er auðvitað bara rosalega andstætt góðum stjórnsýsluháttum, því miður.

Mig langar líka aðeins að velta því upp hvar við drögum línuna ef við erum að fara að þröngva einhverjum svona lögum í gegnum þingið, þrátt fyrir augljósa andstöðu þingmanna, stofnana og samtaka sem ber að taka mark á. Hvað næst? Hvaða réttindum munum við vega að næst? Hvaða hópum munum við vega að næst? Eru það kannski öryrkjar? Við byrjum á hælisleitendum en hverjir verða það næst? Verða það öryrkjar eða fátækir? Verða það eldri borgarar? Hvar drögum við línuna? Ég held að ekki bara lögfestingin á lagaákvæðinu muni vera fordæmisgefandi, heldur líka meðferðin sem þetta lagafrumvarp hlýtur í þinginu. Ef svona lagaákvæði, sem er ekki einu sinni víst að samræmist stjórnarskrá, nær að fara í gegnum þingið án vandræða þá veit ég ekki hvar við munum draga línuna næst. Við þurfum auðvitað að vera varkár og gæta vinnubragða okkar og sjá til þess að málin séu vel unnin. Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita aðhald og sjá til þess að það sé engin þvæla að fara hér í gegn í umboði löggjafarþingsins sem við sitjum á.

Virðulegi forseti. Ég náði ekki einu sinni að víkja efnislega að ákvæðum frumvarpsins og bið því um að vera sett aftur á mælendaskrá.