Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:49]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Ég hef verið að gera grein fyrir nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar og með leyfi forseta held ég áfram þar sem frá var horfið:

„Líkt og MHÍ bendir réttilega á í umsögn sinni skapast allveruleg hætta á því að sambærileg vanræksla á stjórnskipulegri skyldu löggjafans eigi sér stað nú verði frumvarp dómsmálaráðherra að lögum, þar eð ekkert mat á samræmi við stjórnarskrána hefur farið fram.

Við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd var farið fram á að gerð yrði úttekt á einstökum ákvæðum frumvarpsins með tilliti til þess hvernig þau samræmdust stjórnarskránni og þeim alþjóðlegu mannréttindaskuldbindingum sem Ísland er aðili að. Taldi hvorki meiri hlutinn né ráðuneytið þörf á slíkri úttekt þrátt fyrir framangreindar ábendingar. Að mati 3. minni hluta er um slíkan annmarka á meðferð málsins að ræða að hann gefi einn og sér tilefni til þess að senda málið aftur til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar og nánari ígrundunar.

Umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um frumvarpið barst nefndarmönnum ekki fyrr en 1. desember 2022, þrátt fyrir að umsögnin hafi verið send þinginu 22. nóvember 2022. Mættu fulltrúar Flóttamannastofnunar á fund allsherjar- og menntamálanefndar 2. desember og svöruðu spurningum nefndarmanna með fjarfundarbúnaði. Í umsögn Flóttamannastofnunar eru gerðar nokkrar alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og lagðar til skýrar og einfaldar breytingar á frumvarpinu til þess að það megi standast flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar um réttindi fólks á flótta. Þrátt fyrir þetta töldu dómsmálaráðuneyti og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar ekki tilefni til þess að gera neinar breytingar á frumvarpinu. Þriðji minni hluti tekur undir athugasemdir Flóttamannastofnunar og telur um leið nauðsynlegt að árétta ákvæði 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, þar sem segir að íslenskum stjórnvöldum beri að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og laga um hann.

Með erindum 24. nóvember, 2. desember og 9. desember 2022 svaraði dómsmálaráðuneyti innsendum umsögnum og athugasemdum, þar á meðal framangreindum athugasemdum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Flóttamannastofnunar. Á fundum allsherjar- og menntamálanefndar 17. og 20. janúar 2023 komu báðir þessir aðilar ásamt öðrum umsagnaraðilum fyrir nefndina að nýju og ítrekuðu afstöðu sína þrátt fyrir svör ráðuneytisins.

Tímafrestir og tafir á málsmeðferð – 2. gr. og c-liður 8. gr.

Með tímafrestum í 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga, sem komu nýir inn með lögum nr. 80/2016, voru sett viðmið í löggjöfina um málsmeðferðartíma í samræmi við tillögur nefndar um málefni útlendinga utan EES sem skipuð var af innanríkisráðherra árið 2011. 2 Í skýrslu nefndarinnar kom fram að allir umsagnaraðilar sem nefndin leitaði til hefðu verið á einu máli um að afgreiðslutími mála væri of langur og að grundvallaratriði væri að stytta biðtíma hælisleitenda eftir úrlausn mála, m.a. þar sem langur málsmeðferðartími hefði í för með sér aukinn kostnað fyrir stjórnvöld vegna þeirrar þjónustu sem stjórnvöld eru skuldbundin til að veita hælisleitendum á meðan á meðferð mála stendur.“

Ég á töluvert eftir, virðulegi forseti, og óska eftir að fá að fara aftur á mælendaskrá.