Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni talaði ég um 7. gr. frumvarpsins og vísaði í umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og athugasemdir þeirra við hana. Í stað þess að hafa þetta einhvern veginn úti um allt og tala um 7. og 8. gr. til skiptis, ákvað ég að taka líka fyrir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um 7. gr. Hún er sömuleiðis mjög góð og tel ég fullt tilefni til að reifa þær athugasemdir sem þar birtast. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein um endurteknar umsóknir bætist við lögin. MRSÍ óttast að ákvæðið setji umsækjendum um alþjóðlega vernd þröngar skorður hvað varðar að fá endurtekna umsókn tekna til skoðunar. Í ákvæðinu segir að verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar skuli málsmeðferð hennar fyrst og fremst taka mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar. Einnig skal endurtekinni umsókn vísað frá ef umsækjandi er ekki á landinu. MRSÍ telur þessa takmörkun fela í sér réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem ætlunin er að ný málsmeðferð endurtekinna umsókna komi í stað endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, en þá er [ekki] um að ræða nýtt stjórnsýslumál heldur er eldra mál tekið til nýrrar meðferðar, t.d. ef líkur eru á að ákvörðun í málinu byggi ekki á réttum forsendum, t.d. vegna þess að skort hefur á upplýsingar eða gögn sem gætu breytt niðurstöðu málsins. MRSÍ bendir á að í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir að þau sérákvæði í lögum, sem geri minni kröfur til stjórnvalda, þoki hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum stjórnsýslulaga.“

Virðulegi forseti. Þessi athugasemd er varðar 7. gr. er efnislega samhljóða athugasemd Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og ég held að það sé smá vísbending um að flestir sérfræðingar í þessum málaflokki hafi áhyggjur af sömu afleiðingunum, sem liggja frekar skýrt fyrir þegar maður hefur gramsað aðeins í þessum lögum og velt beitingu og túlkun þeirra fyrir sér. Eins og ég reifaði hér þá segir í umsögn MRSÍ, með leyfi forseta:

„MRSÍ bendir á að í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir að þau sérákvæði í lögum, sem geri minni kröfur til stjórnvalda, þoki hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum stjórnsýslulaga.“

Virðulegi forseti. Þetta er eitthvað sem ég held að ég hafi farið í gegnum á fimmtudaginn, föstudaginn og líka í gær með því að lesa upp úr bók Páls Hreinssonar hvað varðar málsmeðferðarreglur almennra stjórnsýslulaga. Aðrir umsagnaraðilar hafa líka bent á þetta og hef ég ítrekað bent á þetta uppi í pontu í tengslum við beitingu þessara laga og hver rétthæðin er, hvort þessi ákvæði vegi meira heldur en almenn ákvæði stjórnsýslulaga. Eins og Mannréttindaskrifstofa Íslands segir, ef eitthvert ákvæði gerir minni kröfur til stjórnvalda, ekki til aðilans sem er með mál til meðferðar hjá stjórnvöldum heldur stjórnvalda, þá þokar það fyrir almennum ákvæðum stjórnsýslulaga. Hér er auðvitað verið að gera minni kröfur til þeirra stjórnvalda sem taka þessi mál til meðferðar með því að skerpa ekki á rannsóknarskyldu stjórnvalda í þessum efnum og reynt er að auka skilvirkni með því að stytta málsmeðferðartímann, sem leiðir til hraðari og óvandaðri afgreiðslu. Því liggur það skýrt fyrir að almenn ákvæði stjórnsýslulaga vega bara meira heldur en t.d. þessi 7. gr. Það er bara frekar skýrt, þar sem það kemur fram í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins sem varð að stjórnsýslulögum. Ég þarf ekkert að fara út í það hvað telst vera lögskýringargagn og hvað er notað þegar maður veltir fyrir sér túlkun einstakra lagaákvæða, en staðreynd málsins er sú að stjórnsýslulögin hafa mótast í framkvæmd og virka mjög vel eins og reynslan hefur sýnt að þeim hefur verið beitt hingað til. Það er engin þörf á því að lögfesta einhver ákvæði sem valda sérfræðingum í þessum málaflokki áhyggjum og sem gera ekki jafn strangar kröfur til stjórnvalda. Þegar stjórnvöld eru að úrskurða um réttindi og skyldur borgara þá ber að taka því alvarlega og stjórnvöldum ber að fara eftir öllum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.