Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er kominn hérna í undirkafla um kærur á hendur íslenska ríkinu um brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans, sem fjallað er um í greinargerð með frumvarpi um mannréttindasáttmála Evrópu þegar hann var lögfestur hér á þingi. Ég ætla að fara aðeins yfir hversu mikilvægur sáttmáli þetta er fyrir bara allt sem við byggjum í rauninni, það sem við köllum með lögum skal land byggja, en alla vega, með leyfi forseta:

„Kærur á hendur íslenska ríkinu um brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans. Hér áður hefur komið fram að ákvæði samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis fela í sér heimildir til að leita úrlausnar fyrir stofnunum samkvæmt samningnum um hvort íslenska ríkið, líkt og önnur aðildarríki að honum, hafi brotið gegn þeim þjóðréttarskuldbindingum um tryggingu mannréttinda sem það hefur tekið á sig með fullgildingu mannréttindasáttmálans. Samkvæmt 24. gr. samningsins er heimild annars aðildarríkis að honum til að leggja kæru á hendur Íslandi um slíkt brot fyrir mannréttindanefnd Evrópu ekki háð samþykki íslenska ríkisins sem verður þannig bundið af úrskurði ráðherranefndar Evrópuráðsins um slíka kæru skv. 32. gr. samningsins. Líkt og nánast öll önnur aðildarríki að mannréttindasáttmálanum hefur íslenska ríkið jafnframt viðurkennt heimild mannréttindanefndar Evrópu til að taka við kærum einstaklinga á hendur sér fyrir brot á sáttmálanum skv. 25. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og lýst sig bundið af lögsögu Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 46. gr. samningsins.“

Hér lýkur tilvitnuninni í örstutta stund þar sem það er ágætt að segja frá því að þessi mannréttindanefnd er ekki lengur inni í lúppunni, þetta er eins og það var hérna 1992/1993. Þá er ágætt að rifja upp í kjölfar þess að stærsta málið á undanförnum árum þar sem íslenska ríkið hefur verið rassskellt fyrir mannréttindabrot var vegna Landsréttardómsins þar sem þáverandi dómsmálaráðherra kallaði mannréttindadómstólinn einhverja nefnd í Evrópu. Við erum að tala um Mannréttindadómstól Evrópu sem byggir á mannréttindasamningi Evrópu sem var samþykktur af þjóðum Evrópu í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og hefur orðið slíkt mikilvægi — mannréttindabrotin sem samningnum var ætlað af binda endi á, eins og þau sem voru framin í seinni heimsstyrjöldinni, eru núna orðin að einhverri nefnd í Evrópu samkvæmt þáverandi dómsmálaráðherra. Þau ummæli dæma sig sjálf. En aftur með leyfi forseta:

„Að fullnægðum frekari skilyrðum samkvæmt ákvæðum samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis geta þannig önnur aðildarríki að honum kært íslenska ríkið fyrir brot á mannréttindasáttmálanum, svo og einstaklingar eða samtök þeirra sem telja ríkið hafa brotið á sér rétt. Úrlausn í slíku kærumáli er bindandi fyrir ríkið að þjóðarétti, hvort sem hún er fengin fyrir ráðherranefndinni eða mannréttindadómstólnum. Hér verður hins vegar að leggja áherslu á það að þessar stofnanir meta aðeins hvort íslensk réttarregla eða beiting hennar í réttarframkvæmd hér á landi sé efnislega í andstöðu við reglur mannréttindasáttmálans í ákveðnu tilviki. Ef svo er talið kveður ráðherranefndin eða mannréttindadómstóllinn á um það eitt að ríkið hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt sáttmálanum og ákveður eftir atvikum hæfilegar skaðabætur handa þeim sem slíkt brot hefur bitnað á. Þessar stofnanir endurskoða á hinn bóginn ekki efnislega niðurstöðu máls fyrir innlendum dómstóli og úrlausnir þeirra hnekkja í engu gildi íslenskrar dómsúrlausnar, jafnvel þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi brotið gegn mannréttindasáttmálanum. Með öðrum orðum eru þetta þannig ekki áfrýjunardómstig fyrir innlenda dómsúrlausn, heldur aðeins alþjóðastofnanir sem leysa úr því hvort ríkið hafi vanefnt skyldu sína að þjóðarétti. Þessar stofnanir hafa enn síður vald til að ógilda eða raska á annan hátt ákvæðum íslenskra laga, en niðurstaða ráðherranefndarinnar eða mannréttindadómstólsins um að íslenskt lagaákvæði samrýmist ekki mannréttindasáttmálanum bakar hins vegar ríkinu skyldu að þjóðarétti til að hlutast til um að breyta því.“

Það er mikilvægt að átta sig á því hvernig þetta virkar, sérstaklega með tilliti til þess frumvarps sem við erum að ræða núna og mögulegar afleiðingar af því. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.