Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:30]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Ég lauk máli mínu hér áðan varðandi umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, nánar tiltekið athugasemdir Mannréttindaskrifstofu Íslands um 7. gr. frumvarpsins. Eins og ég sagði er þetta alls ekki eini umsagnaraðilinn sem gerir athugasemd við þetta lagaákvæði heldur eru þvert á móti þó nokkrir sem gera það og fjalla ítarlega um 7. gr. Nú ætla ég að lesa umsögn Rauða krossins um 7. gr., bara til að leggja áherslu á hvað það eru margir aðilar sem hafa gert alvarlegar athugasemdir við þetta lagaákvæði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna sem geri umsækjendum um alþjóðlega vernd kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.

Samkvæmt ákvæðinu er 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku ekki ætlað að gilda um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd. Rauði krossinn bendir á að stjórnsýslulög kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna. Í 2. gr. stjórnsýslulaga eru ákvæði um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum. Samkvæmt 2. mgr. halda ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lögin mæla fyrir um, gildi sínu. Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi að lögunum segir enn fremur:

„Þau sérákvæði í lögum, sem gera minni kröfur til stjórnvalda, þoka hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum í lögum þessum.“

Í bók Páls Hreinssonar, Stjórnsýslulögin skýringarrit, er þetta nánar skýrt með eftirfarandi hætti:

„Í samræmi við þá löggjafarstefnu sem fylgt hefur verið annars staðar á Norðurlöndum er í athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, lögð á það áhersla að með frumvarpinu séu gerðar ákveðnar lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar. Þessi grundvallarregla verður jafnframt leidd með gagnályktun frá 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna. Á þeirri forsendu er á því byggt að málsmeðferð sé ekki óvandaðri en stjórnsýslulög mæla fyrir um. Vegna þessarar meginreglu er þess að vænta að sama löggjafarstefna verði tekin upp hér á landi og í nágrannalöndum okkar, þ.e.a.s. að löggjafinn setji ekki sérreglur í lög sem gera vægari kröfur til málsmeðferðar en leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaganna nema veigamikil rök mæli með því. […] Þau sérákvæði í lögum sem gera minni kröfur til stjórnvalda þoka aftur á móti fyrir almennu ákvæðum stjórnsýslulaganna. Með minni eða vægari kröfum er í þessu sambandi, er átt við þau ákvæði sem mæla fyrir um málsmeðferð sem veitir aðila minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin. […] Þegar sama lagaákvæði gerir að sumu leyti strangari kröfur en stjórnsýslulögin, en að öðru leyti ekki, heldur það gildi sínu að því leyti sem það gerir strangari kröfur en stjórnsýslulögin, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga Að því leyti sem ákvæði gerir vægari kröfur til málsmeðferðar en stjórnsýslulögin, ganga ákvæði stjórnsýslulaganna almennt framar.““

Virðulegi forseti. Þetta er eitthvað sem ég er búin að benda svo oft á. Ég meira að segja las nákvæmlega þennan texta úr bók Páls Sveinssonar hér á föstudaginn, minnir mig.

Ég ætla að halda áfram með tilvitnunina út af því að Rauði krossinn kemur inn á rosalega góðan punkt hérna, með leyfi forseta:

„Frumvarpsgreinin er að miklu leyti óbreytt frá því frumvarpi sem var lagt fram á 150. löggjafarþingi en þó er í fyrirliggjandi frumvarpi að finna nýmæli í 1. mgr. Þar hefur nú verið bætt við orðinu „sýnilega“ á undan „auknar líkur“ og orðast 1. mgr. því svo: „Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.“ Í athugasemdum við frumvarpið eins og það var lagt fram á 150. löggjafarþingi sagði eftirfarandi: „Lagt er til að endurteknar umsóknir skuli aðeins teknar til meðferðar ef þeim fylgi gögn eða upplýsingar sem eru til þess fallnar að auka svo einhverju nemi líkurnar á því að umsækjanda verði veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi hér á landi [...]““

Virðulegi forseti. Ég sé að ég er að renna út á tíma en ég er ekki búin að vísa í umsögn Rauða krossins og óska því eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.