Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:13]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er enn þá að velta fyrir mér hvernig við getum verið að tala um sama málið í ljósi þess hversu mikið ber á milli og hef í síðustu ræðum verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil. Með leyfi forseta held ég áfram þar sem frá var horfið:

„Svipting réttinda að 30 dögum liðnum – b-liður 1. og 6. gr.

Samkvæmt 33. gr. gildandi laga um útlendinga skal umsækjanda um alþjóðlega vernd standa til boða húsnæði, framfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð. Fram hefur komið að framfærsla samkvæmt þessu ákvæði sé almennt 8.000 kr. á viku fyrir fyrsta fjölskyldumeðlim og 5.000 kr. fyrir aðra, húsnæði sé gjarnan deilt með öðrum óskyldum aðilum og einungis heilbrigðisþjónusta veitt sem talin sé nauðsynleg og ekki þoli bið. Einhver munur er á veittri þjónustu eftir því hvaða aðili hefur umsjón með henni.

Samkvæmt 7. mgr. 33. gr. núgildandi laga skulu úrræði önnur en nauðsynleg heilbrigðisþjónusta að jafnaði ekki veitt ef viðkomandi umsækjandi hefur nægileg fjárráð til að bera kostnað af þeim sjálfur. Ef í ljós kemur að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafði ekki þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur það stjórnvald sem fer með þjónustuna krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti.

Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 33. gr. laganna þess efnis að fólk verði svipt þessari lágmarksaðstoð að 30 dögum liðnum eftir endanlega synjun á stjórnsýslustigi. Undanþegin þjónustuskerðingunni skulu vera börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra og ættingjar, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir.

Af lestri greinargerðar og umfjöllun um ákvæði þetta í allsherjar- og menntamálanefnd er augljóst að tilgangur ákvæðisins er sá að beita fólk þrýstingi til þess að það komi sér sjálft úr landi í kjölfar synjunar. Við spurningum nefndarmanna um mat á samfélagslegum áhrifum þess að fjölga heimilislausu fólki í örbirgð hér á landi varð fátt um svör, önnur en þau að þessir einstaklingar gætu sjálfir komið sér úr landi. Við meðferð málsins í nefndinni var ítrekað reynt að fá skýr svör eða gögn um afleiðingar þjónustusviptingar samkvæmt tillögunni en án árangurs. Enn er óljóst hvaða réttindi einstaklingar sem sviptir verða þjónustu samkvæmt ákvæðinu munu hafa, hvort í þjónustusviptingunni felist í reynd nokkur sparnaður fyrir ríkissjóð og hverjar afleiðingarnar verða að öðru leyti. Virðist engin hugsun hvíla að baki tillögunni önnur en sú að fólk skuli koma sér af landi brott í kjölfar synjunar. Er ljóst að ákvæðið er illa ígrundað, hroðvirknislega unnið og framkvæmdin með öllu óútfærð.“

Eins og í fyrri ræðum þá nægir ræðutími mér ekki til þess að ljúka þessari yfirferð. Ég mun því halda henni áfram í næstu ræðu og verð því að óska þess við forseta að fara aftur á mælendaskrá.