Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er hérna að fara yfir áhrif mannréttindasáttmálans á lagasetningu á Íslandi eftir því sem leið á frá fullgildingu hans og fram að lagasetningu og það hvernig mannréttindasáttmálinn og fullgilding hans tryggir öllum sem dveljast á yfirráðasvæði hvers ríkis sem fullgildir samninginn þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um, með leyfi forseta:

„Líkt og hjá öðrum ríkjum, sem gengist hafa undir þessa skuldbindingu fyrir sitt leyti, hefur hún óhjákvæmilega sett mark sitt á lagasetningu hér á landi. Þótt engum lögum hafi verið breytt í tengslum við fullgildingu Íslands á sáttmálanum á árinu 1953 verður að ætla að upp frá því hafi verið tekið tillit til þessarar skuldbindingar við setningu nýrra laga. Bein merki þess sjást að vísu sjaldan í gögnum um undirbúning að nýrri löggjöf að skoðað hafi verið sérstaklega hvort ákvæði hennar samrýmist reglum mannréttindasáttmálans, en ýmsar undantekningar eru þó frá því. Þannig má í dæmaskyni benda á að í athugasemdum við frumvörp, sem urðu að lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, lögum nr. 92/1991, um breytingu á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds, og barnalögum, nr. 20/1992, er vikið berum orðum að því hvernig ákvæði mannréttindasáttmálans hafa orkað á tiltekin atriði laganna.“

Þarna erum við að tala um lög sem voru samþykkt á þessu stutta bili. Í raun hefur sú hefð vaxið að horfa til ákvæða mannréttindasáttmálans og er það sérstaklega sett upp núna í sniðmáti lagasetningar að það þurfi að gera grein fyrir áhrifum á stjórnarskrá og mannréttindi. Í frumvarpinu sem við erum að glíma við núna er einmitt fullyrt að það þurfi ekki að huga að neinum ákvæðum stjórnarskrárinnar en í einhverjum tilfellum er talað um áhrif mannréttindasáttmálans á greinina, þó að umfjöllunin um það sé af tiltölulega skornum skammti. Það sem er áhugavert við það er náttúrlega að mannréttindakafli íslensku stjórnarskrárinnar er að miklu leyti til byggður á mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig að ef það er horft á ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu hefur það óhjákvæmilega áhrif á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar — eða ekki óhjákvæmilega en það eru mjög miklar líkur á því að það eigi að ná þar yfir. Það er merkilegt hvernig þetta er sett upp og Mannréttindaskrifstofa Háskóla Íslands gerir einmitt sérstaka athugasemd við það í sinni umsögn að augljóslega gangi greinarnar á bæði stjórnarskrána og þau réttindi sem þar eru og náttúrlega á mannréttindasáttmálann. Alla vega, með leyfi forseta:

„Þá má einnig benda á að í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, kemur fram að ein helsta kveikjan að flutningi þess hafi verið nauðsyn á að laga dómstólaskipanina að þeim kröfum sem gerðar eru til hennar á grundvelli 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, auk álits mannréttindanefndar Evrópu um kæru á hendur íslenska ríkinu þar sem fallist var á að það hafi brotið gegn því ákvæði samningsins. Hér má svo enn fremur minna á að breytingar voru gerðar á skipan dómstóla í héraði með lögum nr. 27/1990 til bráðabirgða fram að gildistöku laga nr. 92/1989, en þetta var gert í tilefni af áðurnefndum dómi Hæstaréttar sem birtist í dómasafni hans frá 1990, bls. 2, þar sem horfið var frá eldri skýringu á reglum um vanhæfi dómara með tilliti til ákvæða 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis.“

Forseti. Við virðumst enn vera tiltölulega léleg með það hvað vanhæfi þýðir hérna á Íslandi þrátt fyrir að það séu rúmlega 30 ár síðan þetta var til umfjöllunar. Við glímum enn við það í ýmsum málum að vanhæfi er til staðar en ekkert gert við því, sem er stórkostlega merkilegt þannig að ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.