Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:50]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég var komin á gott ról hérna áðan þegar tími minn kláraðist, af því að fimm mínútur eru vissulega ekki neitt. Ég var að reyna að setja þessar ótímabæru breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, í samhengi við það að við myndum fara að umbylta einhverjum öðrum lagabálki, eins og t.d. stjórnsýslulögunum, nr. 37/1993, lögum um meðferð einkamála, sem ég man ekki númer hvað eru, lögum um meðferð sakamála og almenn hegningarlög — guð minn almáttugur, ég man heldur ekki númer hvað þau eru, 1940 og eitthvað, 1941, já, frá árinu 1941, minnir mig, ég ætla að tékka á þessu á eftir, frú forseti, mér finnst svolítið … (BLG: 1940.) Já, 1940. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta. En þessum þremur lagabálkum, segjum fjórum lagabálkum, lögum um meðferð einkamála, sakamála, almennum hegningarlögum og svo stjórnsýslulögum, hefur verið beitt reglulega af dómstólum og stjórnvöldum. Samfélagið hefur auðvitað breyst síðan 1940. Samfélagið hefur breyst síðan 1993 — guð minn almáttugur, ég man ekki hvenær lög um meðferð einkamála og sakamál voru sett, mig minnir 1990 og eitthvað. Samfélagið breytist auðvitað og það er mikilvægt að uppfæra lögin í takt við tíðarandann nema það sé uppfært hvernig lögunum er beitt og hvernig framkvæmdin er á beitingu laganna í takt við tíðarandann. Við höfum séð að löggjöf mótast og þróast því meira sem henni er beitt og því fleiri dómafordæmi sem við fáum út úr því að beita einhverjum tilteknum lagaákvæðum. Af hverju gerum við ekki bara nákvæmlega það sama við þennan lagabálk? Hver er tilgangurinn með því að vera að bæta við einhverjum nýjum og varhugaverðum lagaákvæðum í lagabálk sem var settur árið 1900 — nei, ekki árið 1900, árið 2016, guð minn almáttugur, lögin voru samþykkt hér á Alþingi 2017. Þá var umræðan að fara fram.

Hvað erum við að gera, frú forseti? Af hverju erum við að þessu? Af hverju uppfærum við ekki bara beitingu laganna í stað þess að umbylta öllum lagabálknum? Eins og með hugtakið „sanngjarnt og eðlilegt sé“ sem ég kom inn á áðan, af hverju erum við að færa því nýja merkingu? Af hverju erum við að uppfæra þetta og rýmka til fyrir stjórnvöld til að troða einhverjum nýjum atriðum undir þessa skilgreiningu, sem hefur verið notuð víða og mjög lengi í alls konar rétti, í stjórnsýslurétti, í sakamálarétti, bara alls konar? Því tel ég mjög mikilvægt að við höldum því til haga og höldum því til streitu að það þarf ekkert að vera að lögfesta nýja hluti ef það er ekki þörf á því, heldur ætti frekar að breyta framkvæmdinni og túlkun laganna. Alveg eins og í núverandi lagabálki, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur margoft tekið fram, og ég meira að segja tek undir með henni, þá ríkir sátt um þennan lagabálk. Hann er ekkert svo hræðilegur. Það er bara það hvernig stjórnvöld kjósa að túlka þennan lagabálk með íþyngjandi hætti. Þeim ber engin skylda til að gera það. Ef við myndum setja nýtt fólk í þessar stöður myndi það kannski kjósa að túlka þessi lög með einhverjum öðrum hætti. Það er rými til þess.

En með þessum lagabálki sem við erum að ræða hér í dag, áttunda daginn í röð eða eitthvað, ég man það ekki einu sinni, er verið að gefa frekar víðtækar heimildir til að túlka þessi ákvæði rúm og láta allan andskotann — afsakið orðalagið, frú forseti (Forseti (ÁLÞ): Já.) — allan hlutinn falla þar undir. Það er bara ekki góður bragur á því, frú forseti. Ég er kannski ekki mikið fyrir að segja: Því þrengri sem lög eru, því betra. Það má ekki heldur takmarka túlkun á lögum of mikið. En það þarf líka að passa upp á það að ef fólk kemst í þá stöðu að það fer að beita þessum lögum þá verði það ekki alltaf gert með íþyngjandi hætti, sem er bara nákvæmlega það sem lögfesting þessa lagaákvæða gæti haft í för með sér, að þeim verði beitt á varhugaverðan hátt en ekki með varúð, eins og einn umsagnaraðilinn, sem ég man ekki alveg hver er akkúrat núna, benti á að ætti að vera gert. — En ég óska þess að vera sett aftur á mælendaskrá.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill einmitt minna þingmenn á að gæta að orðavali.)