153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir frumvarp til laga um mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um hver áhrifin yrðu ef frumvarpið yrði að lögum. Þetta er gamalt mál og frumvarpið varð síðan að lögum og ég er að fara yfir aðdraganda þess að þessi mannréttindi voru leidd í lög og stjórnarskrá. Það er mikilvægt með tilliti til þess máls sem við erum að fjalla um núna og þeirrar aðfarar sem gerð er þar að réttindum fólks. Ég er að fara yfir þau þrjú atriði sem er sagt að sé rétt að minnast á varðandi það hvaða áhrif það hefði ef þetta frumvarp yrði að lögum, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi verður að vekja sérstaka athygli á því að í frumvarpinu er eingöngu mælt fyrir um lagagildi ákvæða tiltekinna þjóðréttarsamninga. Ef frumvarpið yrði að lögum væru það eingöngu orð þessara samninga sem væru orðinn hluti af íslenskum landsrétti. Fordæmi frá mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóli Evrópu um skýringu þessara orða væru ekki þar með orðin landslög. Á hinn bóginn má telja sjálfsagt að reikna með að íslenskir dómstólar og stjórnvöld hefðu slík fordæmi til leiðsagnar þegar reyna kynni á skýringu einstaka ákvæða laganna. Um skerðingu á sjálfstæði dómstóla og stjórnvalda hér á landi verður engan veginn að ræða af þessum sökum, enda væru þau óbundin af fordæmum og staða þeirra í raun ekki önnur en á ýmsum öðrum sviðum við beitingu íslenskra laga sem eiga sér samhljóða erlendar hliðstæður, en í slíkum tilvikum er alvanalegt að huga að erlendri réttarframkvæmd til leiðsagnar um vafaatriði. Má einnig hafa í huga að dæmi eru þegar af því í íslenskum dómsúrlausnum að vísað sé um fyrirmyndir til skýringa mannréttindanefndarinnar og mannréttindadómstólsins á tilteknum ákvæðum sáttmálans.

Í þriðja lagi má loks benda á það í tengslum við síðastnefnt atriði að það yrði á valdi íslenskra dómstóla og stjórnvalda að skýra ákvæði mannréttindasáttmálans sjálfstætt ef frumvarpið yrði að lögum, þar á meðal þau ákvæði sem ekki væri að finna fordæmi um frá mannréttindanefndinni eða mannréttindadómstólnum, og beita þeim við úrlausn mála. Í því sambandi er þó varla að vænta að úrlausnir um mikilvæg atriði verði byggðar í ríkum mæli á skýringum sem eiga sér ekki einhverja fyrirmynd eða bakhjarl í fræðilegri umfjöllun um ákvæði sáttmálans þótt íslenskum dómstólum og stjórnvöldum væri það vissulega heimilt.“

VII. kafli fjallar um röksemdir fyrir lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu, mikilvægur kafli hérna, með leyfi forseta:

„Með þessu frumvarpi er lagt til að mannréttindasáttmáli Evrópu verði lögfestur hér á landi, en með upptalningu í l. gr. þess er afmarkað nánar hverjir þeir þjóðréttarsamningar eru sem er gefið þetta nafn í einu lagi. Með frumvarpinu er eingöngu stefnt að lögfestingu þeirra samninga sem íslenska ríkið hefur þegar fullgilt fyrir sitt leyti, og hefðu því breytingar á samningunum eða viðaukar við þá í framtíðinni engin sjálfvirk áhrif á efni íslenskrar löggjafar þótt frumvarpið verði að lögum. Miðað er við að reglur sáttmálans verði meðal almennra laga hér á landi.

Áður var minnt á að við fullgildingu Íslands á mannréttindasáttmálanum voru ekki hugmyndir um að lögfesta ákvæði hans og gera hann þar með að hluta landsréttar. Viðhorf varðandi aðild Íslands og annarra ríkja að sáttmálanum voru önnur en nú og af eðlilegum ástæðum lá ekki fyrir nein reynsla af fullgildingunni. Í ljós hefur komið að samræmi er ekki alltaf milli íslenskra laga og ákvæða sáttmálans eins og ráða má af umfjöllun hér að framan um það mál. Efnisinntak einstakra ákvæða sáttmálans hefur nú verið skýrt nánar í hundruðum úrlausna um kærur vegna brota gegn honum á rúmlega þremur áratugum. Úrlausnir hafa einnig þróast í þá átt að gera strangari kröfur til aðildarríkja að sáttmálanum. Þegar litið er nánar á reynsluna með hliðsjón af því hvort íslensk löggjöf veiti fullkomna tryggingu samkvæmt sáttmálanum benda úrlausnir dómstóla hér á landi og mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu ekki til þess að um slíka tryggingu sé að ræða. Eftir að þetta misræmi milli íslensks landsréttar og ákvæða sáttmálans hefur orðið greinilegra hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að lögfesta bæri mannréttindasáttmálann. Þessari skoðun hafði verið hreyft í lögfræðilegri umfjöllun hér áður en misræmisins fór að gæta. Á Alþingi hefur einnig verið vakið máls á því oftar en einu sinni á undanförnum árum og áratugum að huga bæri að lögfestingu mannréttindasáttmálans.“

Virðulegi forseti. Ég bið vinsamlegast um að fara aftur á mælendaskrá til að halda áfram þessari umfjöllun.