Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:01]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef hér í fyrri ræðum verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil. Ég hef einnig verið að gera skil fleiri gögnum sem tengjast málinu, sem virðast ekki hafa verið nýtt og ekki tekið tillit til við gerð frumvarpsins, eins og ýmsum umsögnum ýmissa aðila, ýmissa hjálpar- og mannréttindasamtaka sem og sveitarfélaga og ýmissa annarra aðila og alls konar félagasamtaka. Allar þessar umsagnir og þessi álit gefa það sama til kynna: Hér er á ferðinni meingölluð lagasetning sem mun ekki leysa þau vandamál sem henni er ætlað. Hún er að koma fram í fimmta skipti. Það er ítrekað kallað eftir umsögnum. Þeim umsögnum er ekki sinnt. Það er ekki tekið mark á þeim. Það er ekki tekið mark á nefndarálitum. Og í staðinn fyrir að rökstyðja það einhvern veginn, að það komi einhver rökstuðningur fyrir því hvers vegna ekki eigi að nýta þessar umsagnir, er einfaldlega beðið um aðra umsögn, óskaði eftir fleiri umsögnum. Ég hef heldur ekki séð rökstuðning fyrir því að nefndarálitin sem liggja fyrir komi ekki fram. Við höfum heldur ekki séð neina fulltrúa þessarar lagasetningar koma hingað í fundarsal Alþingis til að gera grein fyrir því hvers vegna þau sjónarmið sem við höfum haldið á lofti hér eigi ekki við, hvers vegna ekki sé tekið tillit til þeirra raka sem koma fram í umsögnum, sem koma fram í álitum, hvers vegna það sé ekki tekið tillit til þeirra við þessa lagasetningu, vegna þess að hér er varað ítrekað, ekki af einum aðila, ekki af tveimur heldur af tugum aðila, við þessari lagasetningu. Það er varað við þeim afleiðingum sem hún kann að hafa, ekki bara fyrir fólk á flótta, því að hún mun svo sannarlega hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ótal marga einstaklinga sem koma hingað í leit að vernd, það liggur alveg fyrir, heldur mun hún jafnframt hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð í formi þess kostnaðar sem því fylgir.

Hér er mikið í húfi. Það er mikið í húfi að við gerum þetta vel. Allur þessi rökstuðningur — og við erum ekki bara að tala um kostnað, við erum ekki bara að tala um mannréttindi. Við horfum til þess sem kemur fram í áliti Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands þar sem er varað sérstaklega við brotum á stjórnarskrá. Við sjáum ítrekað vísað til alþjóðasamninga, ekki eins og ekki tveggja heldur mýmargra. Það er ekki bara einn samningur, það er ekki bara mannréttindasáttmáli Evrópu, það er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, það er flóttamannasáttmálinn og jafnvel fulltrúar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa komið og lýst áhyggjum sínum af þessu. Afar varfærin stofnun, eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, leggur fram hóflegar breytingar en þó afar nauðsynlegar og fyrir þeim fer eins og öllum hinum umsögnunum og öllum hinum tillögunum; það er ekkert gert við þær. Það er bara haldið áfram með frumvarp sem virðist hafa verið að mörgu leyti bara ákveðið hvernig eigi að líta út og verið búið að ákveða nefndarálitin áður en allir umsagnaraðilar voru kallaðir fyrir. Þetta er stórfurðulegt.