Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:06]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég var hér í fyrri ræðu minni að setja breytingar á útlendingalögum, nr. 80/2016, í samhengi við það að breyta einhverjum stórum lagabálkum sem eru notaðir daglega, og þá meina ég daglega. Ég var komin á kaf í að fjalla um umfjöllun umsagnaraðila varðandi 8. gr. en mér líður svolítið eins og ég sé ekki búin að fara nógu djúpt í það hversu fáránlegt það er að breyta einhverjum lagabálki sem var samþykktur fyrir örfáum árum. Nú er ég ekki sterkust í stærðfræði en jú, það var fyrir sex árum, það er núna 2023 og þetta var 2016.

Eins og hefur margoft komið fram í ræðum þingmanna í þessari umræðu er ekki verið að leggja þetta frumvarp fram hér í fyrsta sinn heldur þvert á móti, það er verið að leggja það fram í fimmta sinn. Frumvarpið var fyrst lagt fram árið 2019, minnir mig, og síðan þá hef ég verið að fylgjast með umræðunni. Árið 2019 voru tvö ár síðan það voru samþykkt ný útlendingalög, tvö ár. Það var lagt fram frekari ítarlegt frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga. Hverju hæstv. dómsmálaráðherra hyggst ná fram með þessum breytingum, sem sérfræðingar hafa alfarið lagst gegn og hvetja ríkisstjórnina eindregið til þess að víkja frá, veit ég ekki. Þetta er ekki að fara að auka skilvirkni í málaflokknum. Þetta hefur vakið áhyggjur lögfróðra aðila og finnst mér líklegast að þetta fari fyrir dómstóla og það þurfi að úrskurða um lögmæti þessara lagaákvæða þar. Það er svo auðvitað bara enn þá meiri kostnaður fyrir ríkissjóð og mun skapa álag á kerfin okkar og hafa áhrif á málsmeðferðartíma annarra sem eru að leita úrlausnar á sínum málum fyrir dómstólum til að mynda, ekki bara fyrir stjórnvöldum sem fara með þessi lög, nr. 80/2016.

Ég var að tala um að lög þróast og breytast í takt við tíðarandann og það er vissulega rétt að það er þörf á því að uppfæra lög í takt við tíðarandann. En að uppfæra lög í takt við tíðarandann í þessu tilfelli er auðvitað bara að búa okkur undir það að fólksflutningar á milli landa verði meiri á næstu árum vegna loftslagsvárinnar og vegna ástands í löndum eins og t.d. Úkraínu, Íran, Venesúela, og þessi listi af löndum er alls ekki tæmandi. Við verðum að undirbúa okkur undir það að vera eitt af þeim löndum sem tekur á móti fólki og veitir því mannsæmandi líf. Ég sé ekki hvernig við getum komist hjá því. Ég er ekki að segja: Galopnum landamærin. Það er enginn að tala um það að galopna landamærin. Ég er að tala um að auka skilvirkni í þessu kerfi og þar af leiðandi þurfum við að snúa okkur að því að byggja upp innviði, eins og t.d. húsnæðismarkaðinn. Við þurfum að fara í stórátak til að auka framboð á húsnæði, það liggur alveg skýrt fyrir. Er það bara að fara að nýtast flóttafólki? Nei, alls, alls ekki. Meira framboð á húsnæði er að fara að nýtast ungu fólki til að mynda, ungu fólki sem horfir fram á það að komist inn á húsnæðismarkaðinn eftir svona tíu ár, segjum það. Miðað við hækkun stýrivaxta og þessa verðbólgu og þessa þróun á húsnæðismarkaðnum þá fæ ég ekki séð hvernig ungt fólk á að hafa efni á því að kaupa eigið húsnæði ef það er fast á leigumarkaðnum, og þá skapast bara einhver vítahringur sem ég ætla ekki endilega að fara út í hér. En eitt af því sem uppbygging innviða okkar, ef við förum í stórátak í uppbyggingu innviða á Íslandi, mun hafa í för með sér er að fleiri Íslendingar munu hafa efni á því að eignast eigið húsnæði. Förum í stórátak í styrkingu heilbrigðiskerfisins. Er það bara að fara að nýtast útlendingum? Nei, alls ekki. Það er að fara að nýtast fólki sem er á biðlistum eftir greiningum, meðferðum, aðgerðum, guð minn almáttugur hvað það er að fara að nýtast mörgum. Hvað eru margir á biðlista eftir t.d. ADHD-greiningu akkúrat núna? Ég veit það ekki, ég er ekki með töluna. Hvað eru margir á biðlista eftir sálfræðingum á heilsugæslum? Ég veit það ekki, ég er ekki með töluna. Að fara í stórátak í uppbyggingu innviða mun ekki bara nýtast flóttamönnum og það mun ekki bara auka skilvirkni í kerfinu sem tekur á móti flóttafólki og veitir þeim líf hér á Íslandi, nei, það er fyrst og fremst að fara að nýtast Íslendingum. En ríkisstjórnin er svo dugleg að afvegaleiða þessa umræðu að ég á bara ekki orð. — Ég vil endilega fara aftur á mælendaskrá, frú forseti.