Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:17]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að gera hér í ræðum mínum ýmsum umsögnum skil í heild sinni en í ljósi þess að það gæti verið tímafrekt að fylgjast með slíku langar mig, fyrir þau sem hafa áhuga, að glöggva á smá útdrætti úr þeim umsögnum sem komið hafa fram. Langar mig fyrst að vísa til umsagnar Barnaheilla sem hafa ítrekað kallað eftir samráði en því kalli hefur bara ekki verið svarað. Þau benda á að ótækt sé að tafir sem rekja megi til aðstandenda barns komi niður á rétti barns til efnismeðferðar.

Í umsögn landlæknis kemur fram að óásættanlegt sé að svipta fólk rétti til heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar og vart þurfi að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, geti haft í för með sér ef ekki sé brugðist við því sem upp kemur. Það að njóta heilbrigðisþjónustu séu grundvallarmannréttindi en í alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, nr. 10/1979, segi m.a. í 12. gr. um „rétt sérhvers manns til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.“ Fyrir utan að það sé ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu geti það boðið heim hættu fyrir aðra, t.d. ef einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar er vikið að frestun réttaráhrifa sem hafi gert það að verkum að Útlendingastofnun geti ekki tekið til skoðunar að endurupptaka mál „þó svo talsmenn og/eða við bendum á virkilega slæmar kringumstæður hjá fjölskyldum vegna barnaverndarmála eða annarra kringumstæðna“. Þannig sjáist mál festast í kerfinu og enginn sjáanlegur endir sé á málsmeðferð. Hafnarfjarðarbær telur að það þurfi að skoða vel mál sem eru komin út fyrir málsmeðferð á stjórnsýslustigi og telur að það geti ekki verið að sú biðstaða sem fjölskyldur eru settar í, sér í lagi börn, standist barnasáttmálann og önnur lög sem sett eru í þágu barna.

Íslandsdeild Amnesty International kom með afar ítarlega umsögn og víkur að mjög mörgum þáttum í henni. Það er m.a. vísað til 2. gr. um að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála og um þá kröfu að greinargerð vegna kæru þurfi að berast kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar. Til þessa ákvæðis hafa margar umsagnir vísað og ég skal játa það að við fyrstu sýn virtist mér þetta ákvæði vera nokkuð saklaust eða jafnvel þó nokkuð gagnlegt. En í ljósi þess að það getur tekið langan tíma að afla þessara gagna, eins og einmitt Amnesty International kemur inn á í umsögn sinni, þá getur þetta verið afar þungbært og auðveldlega orðið til þess að mál einstaklings spillist einfaldlega vegna þess að hann náði ekki að skila almennilegri greinargerð innan tímarammans eða yfir höfuð. — Ég á töluvert eftir í yfirferð minni og óska þess því að fá að fara aftur á mælendaskrá.