Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:23]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér í fyrri ræðu minni var ég að ítreka mikilvægi þess að Ísland fari í stórátak í styrkingu innviða sem standa ekki bara útlendingum til boða heldur líka Íslendingum. Ég var búin að fara yfir hvað aukið framboð á húsnæði myndi hafa í för með sér, aðallega, og líka stórátak í að styrkja heilbrigðiskerfið okkar. Ég er ekkert búin að tala um félagslegu kerfin. Ég get byrjað t.d. á menntakerfinu. Haldið þið virkilega að það séu bara börn útlendinga sem þurfa að nota menntakerfið? Nei, bara alls ekki. Það er greinilega einhverju ábótavant þegar kemur að menntakerfinu okkar og því skil ég ekki þessa tregðu við að ráðast í úrbætur á öllu sem er að fara að nýtast íslensku samfélagi, ekki bara núna heldur til frambúðar. Það vantar átak í alls konar málum, eins og velferðarmálum. Það mun alls ekki bara nýtast fólki sem hingað leitar í neyð, og vill nota bene að mestu leyti vinna, heldur mun það líka nýtast Íslendingum sem þurfa á þessu velferðarkerfi að halda. Við þykjumst vera velferðarsamfélag og við erum alltaf að vísa í OECD-ríki og að miðað við önnur OECD-ríki séum við að standa okkur ótrúlega vel í þessum málaflokki og að við séum svo sannarlega velferðarsamfélag. En þetta eru bara orð fyrir mér. Ég hef ekki séð neitt slíkt í framkvæmd. Jú, vissulega erum við gott land, en það má alltaf gera betur. Það stendur ekkert í vegi fyrir því að við gerum betur í þessum efnum og að við gerum Ísland að þessu alvöruvelferðarsamfélagi sem við segjumst vilja vera og sem við segjumst vera á alþjóðlegum vettvangi. Við getum t.d. gripið til aðgerða þegar kemur að loftslagsmálum, alvöruaðgerða, metnaðarfullra aðgerða sem munu skila sér í framtíðinni og eru ekki bara frestun á því óumflýjanlega sem mín kynslóð og kynslóðirnar á eftir minni eru síðan að fara að moka upp og þrífa upp eftir.

Ég bara átta mig í alvörunni ekki á því og ekki heldur á þessu fjármagni sem er varið í það að leggja fram frumvarp aftur og aftur. Svo á að beita þessum lögum sem verða lögfest og eru nýmæli og það verður bara að móta hvernig þeim er beitt og hvernig þau eru túlkuð og hvernig það mun vera dæmt í málum sem varða þau. Því geri ég rosalega miklar athugasemdir við t.d. 7. gr. frumvarpsins þar sem helsti stjórnsýslulögfræðingur á Íslandi, myndi ég segja, hefur nú þegar sagt að ef það skyldi koma upp eitthvert svona ákvæði, eins og kveðið er á um hér í 7. gr., þá vegi almenn stjórnsýslulög bara miklu þyngra en það. Ég er bara hjartanlega sammála Páli Hreinssyni og tel að það sé fullt tilefni til þess að leggja orð hans til grundvallar við beitingu þessara laga og ekki bara beitingu þessara laga heldur líka við samþykkt þessa frumvarps, ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ákveður að hunsa allt sem hér hefur fram komið í margra klukkustunda umræðu um þetta eina frumvarp og tekur ekki þessi ákvæði út. Það eru mörg ákvæði sem valda miklum áhyggjum, eins og t.d. 6. gr. sem ég er búin að tala rosalega mikið um, sem ég held að stangist í alvörunni á við réttmætisregluna og jafnræðisregluna. Ég er búin að fara mjög ítarlega út í það og rökstyðja það mjög ítarlega. Síðan gerir 7. gr. í þessu frumvarpi bara miklu vægari kröfur til stjórnvalda sem eru með mál hjá einhverjum einstaklingi til meðferðar hjá sér. Þessi lög gera miklu vægari kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti og vönduð vinnubrögð heldur en almennu stjórnsýslulögin gera. Því efast ég meira að segja um að þeim verði beitt í framkvæmd. Þetta er rosa góða heimild að hafa, eins og forvirkar rannsóknarheimildir. Það er næs að hafa þessa heimild í lögunum en ég veit ekki hvort það muni koma til þess að þeim verði beitt í framkvæmd. (Forseti hringir.) — Ég óska þess að verða sett aftur á mælendaskrá.