Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:33]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég var byrjaður að fara yfir útdrátt úr umsögn Íslandsdeildar Amnesty International og held því áfram. Hún víkur í umsögn sinni að svipuðum atriðum og ég gerði grein fyrir sjálfur, að gagnaöflun vegna kæru er háð gögnum frá Útlendingastofnun sem gefur sér tíu virka daga að lágmarki til að afhenda skjöl og þá er orðið fátt um fína drætti ef gögnin þurfa að berast innan 14 daga. Það má afar lítið út af bregða til þess að ekki fari illa fyrir þeirri kæru og sú greinargerð sem henni fylgdi yrði mögulega frekar hroðvirknislega unnin ef hún yfir höfuð næði að skila sér. Þá fellur kæran niður, væntanlega vegna þess að einstaklingurinn er þá búinn að falla frá kærunni. Þarna er að mínu mati búið að setja ákveðna gildru í lögin, ákvæði sem virðist meinlaust en er það svo í raun ekki. Þar með er einstaklingurinn sviptur viðunandi málsvörn og því að mál hans sé nægjanlega upplýst í skilningi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Það er einmitt komið inn á það að þessi málaflokkur yrði sá eini sem lyti málsmeðferð innan stjórnsýslunnar þar sem málsaðilum væri ekki tryggður kostur á að njóta réttar síns með raunhæfum hætti í skilningi 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er komið inn á fleira, eins og 6. gr. þar sem er heimild til að skerða eða fella niður grunnþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Þetta eru náttúrlega grundvallarmannréttindi sem snúa að grunnþörfum, fæði, húsnæði, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, og það er bara mjög mikilvægt að við tryggjum að einstaklingar fái notið mannréttinda sinna að fullu.

Íslandsdeild Amnesty International kemur einnig inn á að sá sem bíður endursendingar njóti þá hvorki réttar til almennrar félagsþjónustu né hafi atvinnurétt og þá séum við búin að setja fólk í afar þrönga og raun ómögulega stöðu. Hvað varðar undanþágur á skerðingu, sem mikið hefur verið vikið til og sagt að eigi að leysa þessi vandamál, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar og bent á að Útlendingastofnun hafi ítrekað vanrækt skyldu sína um að rannsaka hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu og teknar hafi verið ákvarðanir í málum áður en mikilvæg heilbrigðisgögn hafi borist, einmitt þrátt fyrir umrædda undantekningu á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu. Í ljósi fyrri reynslu á mati Útlendingastofnunar sé hætta á því að breytingin muni samt sem áður bitna harðast á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Ég er því miður ekki nærri því búinn með þennan útdrátt og á raunverulega þó nokkuð eftir, bæði í að fara yfir útdrátt úr umsögn Amnesty International og fleiri umsagnir. Ég óska þess því að fá að fara aftur á mælendaskrá.