153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:39]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni var ég að tala um ansi margt, m.a. um frelsið sem stjórnvöld fá til þess að beita þessum lögum á íþyngjandi hátt með því að verið sé að rýmka orðalagið í þessum lagaákvæðum. Þar með er meiri hætta á að þessum lagaákvæðum verði beitt af minni varúð og meiri hörku, með meira íþyngjandi hætti og með meira íþyngjandi afleiðingum. Þetta gerir mig svo sorgmædda. Í laganáminu mínu er alltaf talað um löggjafann, vilja löggjafans, og að við þurfum alltaf að túlka hvað löggjafinn meinti með setningu þessara og hinna laga. Ég persónulega leit alltaf mikið upp til löggjafans en svo varð ég sjálf löggjafi og ég sé að lögum sem eru samþykkt hér er náttúrlega ýtt í gegn með frekju og þrjósku. Það er á aðgerðaáætlun hjá einhverjum einstaka ráðherrum að ná sérstökum lagabálki í gegn sem hefur áhrif á einhvern tiltekinn hóp. Það er bara rosalega mikil sérhagsmunagæsla í gangi á þingi og það gerir mig rosalega sorgmædda.

Hvað varðar þessa umræðu sem við erum að taka hér í dag þá er þetta frumvarp þjakað af annmörkum af því tagi að það ber auðvitað að ræða það af alvöru á Alþingi áður en lögin verða samþykkt. Ég vona að ríkisstjórnin og meiri hlutinn geri sér fyllilega grein fyrir því hvað er verið að samþykkja hér, hvers konar afleiðingar þetta gæti haft í för með sér og í bága við hvaða reglur og lög þessi lagabálkur gæti verið að fara.

Þetta er sorgleg staða sem við erum í hér. Ég hélt í alvöru talað að hæstv. dómsmálaráðherra myndi leggja fram frumvörp af meiri vandvirkni og að frumvörpin yrðu betur unnin en þetta. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir umsagnaraðila til að ná í gegn til hæstv. dómsmálaráðherra með ábendingum þess efnis að sum lagaákvæði í þessu frumvarpi muni brjóta í bága við sett lög og mögulega brjóta í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar þá hefur hæstv. dómsmálaráðherra því miður ekki tekið neitt mark á þessum athugasemdum sem hafa borist. Því velti ég fyrir mér: Ef við erum ekki að starfa fyrir fólkið í landinu, hvers vegna erum við hérna? Í alvörunni talað, hvert er okkar hlutverk hér ef ekki að nýta sérfræðiþekkingu annarra aðila við að búa til lög? Það er jú auðvitað tilgangurinn með umsagnaraðilum, með gestakomum í nefndum; að fá hjálp við lagasetningu og við framsetningu löggjafar. Ég skal veðja að það er enginn þingmaður sem veit allt um hvernig einhverjum tilteknum lögum ætti að vera beitt í garð tiltekins hóps og hvernig þeim mun vera beitt og hvernig sé best að orða þau. Ég skal veðja að enginn ráðherra veit það heldur. Þess vegna er svo mikil þörf á því að umsagnaraðilar fái að segja sitt og að það sé tekið mark á þeim. Ég skil kannski að fólk haldi að einhverjir umsagnaraðilar sem við höfum verið að reifa umsagnir frá séu hlutdrægir, en það er alls ekki málið. Ef það eru fleiri en tíu umsagnaraðilar sem segja nákvæmlega það sama, koma með nákvæmlega sömu ábendingarnar og áhyggjurnar, þá ber að taka mark á þeim, þá ber að taka því alvarlega, þá á að taka þessar athugasemdir alvarlega, af því að þetta er ekkert einsdæmi. Það eru ekki bara þingmenn Pírata sem lýsa yfir þessum áhyggjum, það er ekki bara Rauði krossinn sem segir það sama, ekki bara Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, nei, þetta eru margir aðilar og margir flokkar og margir grasrótarhópar sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum. Ég tel tímabært fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að setjast aðeins niður og átta sig á því og átta sig á umfanginu og því hvað felst í að samþykkja lagabálk sem gæti leitt til íþyngjandi aðgerða gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu. — Ég óska þess að vera sett aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti.