Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hver eru áhrif þess að mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur á Íslandi, eða hver voru þau talin verða eins og er náttúrlega verið að fjalla um í frumvarpinu sem ég er að lesa upp úr um þá lögfestingu? Ég er búinn að fara yfir nokkur atriði og ætla að klára þann kafla, með leyfi forseta:

„Ákvæði stjórnarskrárinnar um mannréttindi eru fremur fáorð og komin mjög til ára sinna. Þótt lögfesting mannréttindasáttmála Evrópu breytti í engu efni þessara ákvæða stjórnarskrárinnar má ætla að hún hefði allt að einu þau óbeinu áhrif að ríkari tilhneiging yrði en áður til að beita rúmri skýringu á stjórnarskránni til samræmis við reglur sáttmálans þar sem það gæti átt við.“

Þetta er áhugavert í samhengi málsins sem við erum að ræða. VII. kaflinn fjallar um mannréttindasáttmálann og stjórnarskrá Íslands. Ýmislegt hefur svo sem gerst síðan, þetta var lögfest og búið að uppfæra í stjórnarskránni en mannréttindasáttmálinn er samt enn þá ítarlegri, eins og er sagt hérna, með leyfi forseta:

„Nefndarmenn sem undirbjuggu þetta frumvarp telja að endurskoða þurfi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar ekki síst með hliðsjón af mannréttindasáttmálanum. Ljóst er að sú leið er seinfarin og lögfesting sáttmálans í almenn lög ætti að auka líkur á breytingu stjórnarskrárinnar á þann veg að mannréttindaákvæðin verði ítarlegri. Með því móti yrði enn betur tryggt að ekki verði hróflað við þeim mannréttindum sem sáttmálanum er ætlað að tryggja.“

Ég endurtek: „… að ekki verði hróflað við þeim mannréttindum sem sáttmálanum er ætlað að tryggja.“ Ég fer aðeins nánar yfir það seinna, en aftur með leyfi forseta:

„Þegar fjallað er um hvort lögfesta eigi mannréttindasáttmála Evrópu verður að gefa því gaum hvort meinbugir gætu verið á því vegna stjórnarskrár íslenska ríkisins. Verður þá að líta til þess hvort lögfestingin feli í sér framsal íslensks ríkisvalds. Í I. kafla mannréttindasáttmálans eru efnisreglur um mannréttindi sem eðli sínu samkvæmt geta ekki falið í sér valdframsal. Lögfesting annarra ákvæða sáttmálans, þ.e. II.–V. kafla, tryggir stöðu þeirra manna hér á landi sem hann verndar. Í henni felst ekki framsal ríkisvalds til stofnana þeirra sem í sáttmálanum eru taldar (mannréttindanefndar, mannréttindadómstóls og ráðherranefndar). Segir ekkert um það í sáttmálanum að stofnunum þessum sé falið vald til að taka ákvarðanir sem unnt sé að framfylgja hér á landi gagnvart einstaklingum eða öðrum aðilum eins og um væri að ræða ákvarðanir handhafa íslensks ríkisvalds skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lögfestingin breytir því ekki að þær skuldbindingar ríkisins, sem með beinum hætti felast í sáttmálanum, eru þjóðréttarlegs eðlis, sbr. 1. gr. hans. Framangreindar stofnanir taka afstöðu til þess hvort þessar þjóðréttarskuldbindingar hafa verið efndar.

Í fyrsta lagi er ekki um það að ræða að stofnanir þær, sem taldar voru, fari með löggjafarvald hér á landi. Geta ákvarðanir þeirra ekki breytt íslenskum lögum þó að í ákvörðununum geti falist að íslenska ríkið sé að þjóðarétti skuldbundið til lagabreytinga. Það atriði breytist ekki við lögfestingu sáttmálans og hefur verið til staðar alla tíð frá fullgildingu hans fyrir 40 árum.“ — við erum komin í rúmlega 70 ár núna — „Breytingar á sáttmálanum fá ekki lagagildi hér á landi nema með nýrri lagasetningu frá Alþingi. Þá felst ekki í lögfestingunni framsal á íslensku framkvæmdarvaldi. Stofnanirnar, sem starfa á grundvelli sáttmálans, fara ekki með neitt vald til að hrinda ákvörðunum sínum í framkvæmd. Þó að unnt sé að víkja ríki úr Evrópuráðinu vegna brota á sáttmálanum á vald til þess ekkert skylt við framkvæmdarvald skv. 2. gr. stjórnarskrár Íslands.

Í þriðja lagi felst ekki í lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu framsal á íslensku dómsvaldi. Mannréttindadómstóllinn og ráðherranefnd, og með óbeinum hætti mannréttindanefnd, hafa aðeins vald til að skera úr því með yfirlýsingu hvort reglur mannréttindasáttmálans hafi verið brotnar. Ákvarðanir um þetta geta ekki fellt úr gildi íslenska dóma. Það er hlutverk íslenskra aðila, sem starfa samkvæmt íslenskum lagareglum, að mæla fyrir um fullnustu þeirra þjóðréttarskuldbindinga sem skapast geta vegna ákvarðana mannréttindadómstólsins eða annarra stofnana sem nefndar voru. Heimild sú, sem dómstólnum í Strassborg er veitt í 50. gr. mannréttindasáttmálans (Forseti hringir.) til að mæla fyrir um bætur, leiðir ekki heldur til þess að réttur skapist til fullnustugerða hér á landi.“ — Vinsamlegast bætið mér aftur á mælendaskrá, forseti.