Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:50]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég var að gera útdrætti úr umsögn frá Íslandsdeild Amnesty International skil og ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið. Íslandsdeild Amnesty International bendir á 7. gr. einnig og að endurtekin umsókn verði háð því sem kallað er „sýnilega auknar líkur“ á að umsögn verði samþykkt. Þarna sé ákveðin viðbótarkrafa um gögn sem sýnilega þurfi að leiða til þess að það séu auknar líkur á að umsóknin verði tekin fyrir og þannig búið að skapa ákveðna útilokunarástæðu fyrir stjórnvöld til að réttlæta synjun. Í þessu tilliti er líka bent á að þetta fari gegn stjórnsýslulögum þar sem einstaklingur á rétt til endurtöku máls en með þessu sé búið að setja einhverja ákveðna girðingu á þennan möguleika, sem hljómar hálfundarlega.

Það er fleira sem Íslandsdeild Amnesty International gerði athugasemdir við, eins og 8. gr. sem varðar vernd í öðru ríki og þau vísa til að sé sjálfkrafa synjun óháð raunverulegum aðstæðum viðkomandi ríkis eða viðkomandi umsækjanda. Þau benda á að aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi hafi einmitt verið gagnrýndur t.d. af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International og vísa í fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðs, mannréttindasamtaka og frjálsra félagasamtaka sem virðast gefa til kynna að raunverulegri stöðu flóttafólks í Grikklandi sé verulega ábótavant. Það er jafnframt vísað til nýlegs úrskurðar kærunefndar útlendingamála, nr. 513/2021, og að þar komi beinlínis fram að það sé mat hennar að það sé ljóst af þeim gögnum sem þar liggja fyrir að einstaklingar sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Þetta stangist á við regluna um „non-refoulement“, um að ekki megi flytja umsækjenda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Það er nóg eftir, en Íslandsdeild Amnesty International kemur jafnframt inn á 13. gr. sem er um takmarkanir á fjölskyldusameiningu og þau vísa til þess að þeir einir geti verið grundvöllur fjölskyldusameiningar sem uppfylli skilyrði 37. og 39. gr. laganna. Þannig uppfylli einstaklingar sem hafi fengið á grundvelli 45. gr. laganna ekki skilyrði fyrir frekari fjölskyldusameiningu á grundvelli þessa ákvæðis. Ekki verði séð hvaða ástæður eða nauðsyn liggi að baki því, auk þess sem rík mannúðarsjónarmið liggi að baki því að leyfa sameiningu fjölskyldna í tilviki þeirra sem hafa fengið alþjóðlega vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laganna. Þá er einnig vísað í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um meginregluna um einingu fjölskyldunnar og að það sé mikilvægt að einstaklingar á flótta geti sameinast fjölskyldum sínum, enda geti aðskilnaður þeirra við fjölskyldur reynst þeim afar þungbær, haft neikvæð áhrif á möguleika þeirra til að aðlagast og gerast virkir þátttakendur í samfélaginu.

Hér á ég nóg eftir, frú forseti, og óska eftir að komast aftur á mælendaskrá.