Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:00]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að gera skil útdráttum úr umsögnum við frumvarpið. Fyrir þau sem kannski ekki hafa tíma til að hlusta á heilar umsagnir eru hérna stuttir útdrættir þar sem hægt er að glöggva sig á lykilatriðum umsagnanna í knappari texta. Ég var langt kominn með að fara yfir útdráttinn úr umsögn Íslandsdeildar Amnesty International. Það eina sem ég átti eftir að koma að er að Íslandsdeild Amnesty International leggst alfarið gegn frumvarpinu og hvetur stjórnvöld til að draga það til baka.

Þá vík ég að umsögn Kvenréttindafélags Íslands sem bendir á að ekki hafi verið framkvæmt nægilegt jafnréttismat en að slíkt sé skylt samkvæmt jafnréttislögum, nr. 150/2020. Jafnframt er bent á að frumvarpið hunsi þau ólíku áhrif sem slík lagabreyting kunni að hafa á stöðu kynjanna. Hér er einnig vikið að handbók Jafnréttisstofu sem tilgreinir að skoða þurfi hvort lögin muni koma til með að hafa „áhrif á líf fólks“ og hvort það sé „munur á stöðu karla og kvenna í málaflokknum“. Kvenréttindafélagið bendir einnig á að ekki hafi verið tekið tillit til stöðu kvenna eða annarra jaðarhópa, t.d. þolenda mansals eða kynfæralimlestinga. Einnig segir að ekki hafi verið haft samráð við fagaðila við vinnslu frumvarpsins og vísað þar í sameiginlega áskorun 15 félagasamtaka á Íslandi frá 19. maí á síðasta ári. Áréttar Kvenréttindafélagið vanrækslu Útlendingastofnunar við það að meta hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd geti verið í sérlega viðkvæmri stöðu og bendir á að konur séu líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi á flótta, þær eigi einnig í hættu á að deyja á meðgöngu eða af barnsburði fái þær ekki viðhlítandi heilbrigðisþjónustu.

Það er fleira. Kvenréttindafélagið bendir á að þrátt fyrir að samkvæmt breytingu á frumvarpinu eigi barnshafandi konur að njóta áframhaldandi heilbrigðisþjónustu sé ekkert tekið fram um önnur réttindi þeirra og þær séu því í jafn mikilli hættu og aðrir á að lenda á götunni.

Það síðasta sem ég ætla að benda á í þessum útdrætti mínum er að það er líkt komið á með Kvenréttindafélaginu og Íslandsdeild Amnesty International; Kvenréttindafélagið krefst þess að frumvarpið verði dregið til baka.

Við erum með fleiri útdrætti og hér er útdráttur úr umsögn Þroskahjálpar. Samtökin Þroskahjálp benda á að það virðist vera að þröng skilyrði séu sett fyrir því að umsækjendur teljist falla undir það að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Útlendingastofnun virðist ekki skrá fötlun eða alvarleg veikindi sem sérstaka breytu við meðferð mála hafi viðkomandi hlotið vernd í öðru ríki. — En nú er ég fallinn á tíma og óska þess að fá að komast aftur á mælendaskrá.