Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að ljúka við að fara yfir greinargerðina sem fylgdi frumvarpi til laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Það er síðan hægt að fara yfir athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins en ég ætla að geyma það þar sem það er kannski aðeins of tæknilegt akkúrat hvað þetta frumvarp varðar. En það sem skiptir máli er að fara aðeins yfir hvað umsagnirnar segja og benda á að sé mögulega verið að vísa til í mannréttindasáttmálanum. Það segir í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu að samningurinn sé til verndar mannréttindum og mannfrelsi, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu, hafa í huga hina almennu mannréttindayfirlýsingu, sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 1948;

hafa í huga, að yfirlýsing þessi hefur það markmið að tryggja almenna og raunhæfa viðurkenningu og vernd þeirra réttinda, sem þar er lýst;

hafa í huga, að markmið Evrópuráðs er að koma á nánari einingu aðildarríkjanna og að ein af leiðunum að því marki er sú, að mannréttindi og mannfrelsi séu í heiðri höfð og efld;

lýsa á ný eindreginni trú sinni á það mannfrelsi, sem er undirstaða réttlætis og friðar í heiminum og best er tryggt, annars vegar með virku, lýðræðislegu stjórnarfari og, hins vegar, almennum skilningi og varðveislu þeirra mannréttinda, sem eru grundvöllur frelsisins;

eru staðráðnar í því að stíga fyrstu skrefin að því marki að tryggja sameiginlega nokkur þeirra réttinda, sem greind eru í hinni almennu mannréttindayfirlýsingu, enda eru þær stjórnir Evrópuríkja, sem sama sinnis eru og eiga sameiginlega arfleifð stjórnmálahefða, hugsjóna, frelsis og réttarríkis;

staðfesta að samningsaðilarnir hafa í samræmi við nálægðarregluna þá frumskyldu að tryggja þau réttindi og það frelsi sem eru skilgreind í þessum sáttmála og samningsviðaukum við hann, og hafa við það svigrúm til mats með fyrirvara um eftirlitslögsögu Mannréttindadómstóls Evrópu sem komið er á fót með þessum sáttmála; …“

Virðulegi forseti. Orðið frelsi er ansi oft notað í þessum texta og það er áhugavert þar sem sérstaklega einn flokkur í ríkisstjórninni notar það orð á tyllidögum, gríðarlega oft, og segist mjög fylgjandi því að boða frelsi hingað og þangað en þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara frelsi fyrir suma, ekki alla. En það er það sem mannréttindasáttmáli Evrópu á að tryggja; frelsi fyrir alla, jafnrétti fyrir alla, tjáningarfrelsi fyrir alla, atvinnufrelsi fyrir alla.

Ég ætla að fara aðeins yfir umsagnirnar sem slíkar, taka þær saman í hverri grein og fara yfir það hvaða greinar mannréttindasáttmálans er verið að vísa í í þeim umsögnum þannig að við náum kannski aðeins að átta okkur á samhenginu eða í hvaða hluta mannréttindasáttmálans er verið að vísa. Að grunni til er það náttúrlega bara 1. gr., við skulum hafa það alveg á hreinu, sem sagt skyldan til að virða mannréttindi. Það liggur einna beinast fyrir. Ég klára kannski þessa ræðu á því, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skulu tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla þessa samnings.“

Eins og ég nefndi áðan á það ekki bara við um ríkisborgara hvers lands fyrir sig heldur alla af því að þetta er samningur til að takast svolítið á við afleiðingar þess sem gerðist í síðari heimsstyrjöldinni þegar fólk tvístraðist úti um allt, varð flóttamenn, (Forseti hringir.) ekki í eigin landi, og það þurfti að sinna mannréttindum þeirra. — Vinsamlegast bætið mér aftur á mælendaskrá.