Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:11]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið en ég hef verið að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi og er af nægu að taka. Ég er í kaflanum um athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins og við erum komin að 7. gr. og ég held áfram að vitna í þessa ágætu umsögn, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn bendir á að stjórnsýslulög kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna. Í 2. gr. ssl. eru ákvæði um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum. Samkvæmt 2. mgr. halda ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lögin mæla fyrir um, gildi sínu. Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi að lögunum segir enn fremur:

„Þau sérákvæði í lögum, sem gera minni kröfur til stjórnvalda, þoka hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum í lögum þessum.“

Í bók Páls Hreinssonar, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, er þetta nánar skýrt með eftirfarandi hætti:

„Í samræmi við þá löggjafarstefnu sem fylgt hefur verið annars staðar á Norðurlöndum er í athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 lögð á það áhersla að með frumvarpinu séu gerðar ákveðnar lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar. Þessi grundvallarregla verður jafnframt leidd með gagnályktun frá 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna. Á þeirri forsendu er á því byggt að málsmeðferð sé ekki óvandaðri en stjórnsýslulög mæla fyrir um. Vegna þessarar meginreglu er þess að vænta að sama löggjafarstefna verði tekin upp hér á landi og í nágrannalöndum okkar, þ.e. að löggjafinn setji ekki sérreglur í lög sem gera vægari kröfur til málsmeðferðar en leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaganna nema veigamikil rök mæli með því. […] Þau sérákvæði í lögum sem gera minni kröfur til stjórnvalda þoka aftur á móti fyrir almennu ákvæðum stjórnsýslulaganna. Með minni eða vægari kröfum er í þessu sambandi átt við þau ákvæði sem mæla fyrir um málsmeðferð sem veitir aðila minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin. […] Þegar sama lagaákvæði gerir að sumu leyti strangari kröfur en stjórnsýslulögin, en að öðru leyti ekki, heldur það gildi sínu að því leyti sem það gerir strangari kröfur en stjórnsýslulögin, sbr. 2. mgr. 2. gr. ssl. Að því leyti sem ákvæði gerir vægari kröfur til málsmeðferðar en stjórnsýslulögin, ganga ákvæði stjórnsýslulaganna almennt framar. ““

Þetta er eitthvað til að hugsa um og ég ætla að halda áfram með þessa umsögn í næstu ræðu minni og bið því forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.