Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:17]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef hérna verið að grípa niður í útdrætti úr umsögnum fyrir þau sem kjósa knappari texta til að ná meira af efni inn hraðar og var kominn að umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar. Samtökin benda á að það séu þröng skilyrði sett fyrir því að umsækjendur teljist falla undir að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og vísa til þess að Útlendingastofnun virðist ekki skrá fötlun eða alvarleg veikindi sem sérstakra breytu þegar viðkomandi hefur hlotið vernd í öðru ríki. Þau segja að Útlendingastofnun hafi ítrekað vanrækt þá rannsóknarskyldu sem á henni hvíli við að ganga úr skugga um hvaða þýðingu fötlun eða alvarleg veikindi hafi fyrir viðkomandi sem er sendur úr landi eftir synjun um vernd hér og erlendis.

Landssamtökin Þroskahjálp benda einnig á að íslenska ríkið hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og á þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í samhengi við það. Af því leiði að Útlendingastofnun sé skylt að taka mikið tillit til ákvæða samningsins. Sérstaklega er komið inn á þá meðferð sem fatlaður flóttamaður var beittur við brottvísun til Grikklands þann 4. nóvember sl. sem bendi til þess að það þurfi að endurskoða kerfið frá grunni. Líkt og mörg önnur félagasamtök og aðrir umsagnaraðilar kallar Þroskahjálp eftir samráði, sama samráði og við höfum bent á og kallað eftir og ekki bara við heldur margir umsagnaraðilar. Samtökin ítreka mikilvægi rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og benda á að upp hafi komið tilvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við ósýnilega fötlun og það hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir að Útlendingastofnun hafði tekið ákvörðun. Þroskahjálp gerir þá kröfu að fagaðili með sérþekkingu á málefninu komi að mati á því hvort einstaklingur teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það síðasta í þessum útdrætti frá Landssamtökunum Þroskahjálp er að þau telja það mikil vonbrigði að frumvarpið innifeli ekki ákvæði um hvernig megi standa betur að meðförum mála fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd í því skyni að mæta þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla.

Þá vík ég að umsögn Læknafélags Íslands sem áréttar þá afstöðu að kalli útgáfa heilbrigðisvottorðs á heilbrigðisskoðun eða læknisrannsókn á grundvelli nýrra greina í lögunum og það sé án samþykkis viðkomandi þá geti hún aldrei farið fram nema á grundvelli dómsúrskurðar. — Ég á mikið eftir í umfjöllun minni og óska eftir að komast aftur á mælendaskrá.