Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég er að fara hérna yfir 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um sjálfkrafa kæru og Íslandsdeild Amnesty international bendir á að sé mögulega á skjön við 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Hér er fjallað um hvernig það er búið að vera að stytta tímann sem fólk hefur til að klára að skila af sér greinargerð til kærunefndar útlendingamála, til að skila sínu máli þangað. Hann er orðinn 14 dagar, hann er 21 dagur í Noregi og Svíþjóð, sem er tiltölulega stutt líka, en er í rauninni sambærilegur á við það sem hann er núna þegar allt kemur til alls, 14 dagar, ég man ekki nákvæmlega hvernig það var. Mér finnst þægilegra að hafa það fyrir framan mig til að segja það skýrt.

Umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar fjallar um þetta ákvæði sem svo, með leyfi forseta, varðandi að ákvarðanir um synjun sæti sjálfkrafa kæru, 2. gr.:

„Þessi breyting mun stytta þann tíma sem umsækjendur hafa til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar, afla nýrra gagna og undirbúa greinargerð vegna kæru. Það getur oft tekið tíma að afla gagna erlendis frá …“ — og fá leiðbeiningar lögfræðings til að undirbúa kæru. — „Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggst gegn því að 7. gr. laganna verði breytt með þessum hætti.“

Mannréttindaskrifstofa Íslands segir að sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála — Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að þetta ætti að vera valkvætt, þetta takmarki tímann til að glöggva sig á efni ákvörðunar Útlendingastofnunar, til að afla nauðsynlegra gagna, og sé til þess fallið að valda réttindamissi. Mannréttindaskrifstofa Íslands vísar til meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem andmælaréttar og rannsóknarreglu, og réttarins til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Það verður ekki mikið skýrara hvaða bjöllum er verið að reyna að hringja hérna: Gerið þetta vel, gerið þetta betur en þetta er útskýrt í frumvarpinu.

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands „vekur athygli á því að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn málsins. […] Útlendingastofnun áskilur sér a.m.k. 10 daga frest til að afhenda öll gögn. Tímafrekt getur einnig verið að afla gagna annars staðar frá. Það gefur umsækjanda því afar skamman frest til að vinna greinargerð sína, svo skamman að illmögulegt getur verið fyrir umsækjanda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati MHÍ brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem m.a. er tryggður í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu …“

Umtalsverð réttindaskerðing er þetta kallað.

Við höfum fengið kærunefnd útlendingamála á fund allsherjar- og menntamálanefndar. Þau segja að það sé alveg hægt að skila greinargerð aðeins seinna eða viðbótargreinargerð eða fleiri gögnum og alls konar svoleiðis. Þá klórar maður sér í hausnum. Það er nefnilega sagt hérna í greininni að greinargerð vegna kæru skuli berast innan 14 daga. Það þýðir að það er komin kvöð og ef kærunefnd útlendingamála eða yfirvöld ákveða að beita lagareglunni eins og hún stendur þá geta þau það bara. Ef þau segja síðan: Nei, nei, heyrðu, það er málefnalegt að skila seinna, allt í lagi, við tökum við þessu núna, en í þessu máli: Nei, nei, við ætlum bara — fyrirgefðu, það stendur hérna í lagatextanum „skal“, þú skilaðir eftir 15 daga, við sjáum engin veigamikil rök fyrir því að við ættum að taka við neitt fleiri gögnum, bless. Það er mögulegt samkvæmt orðanna hljóðan í lögunum og það er lagatextinn sem gildir. Það að búa til einhvers konar ferli, við tökum við fleiri gögnum seinna o.s.frv., ef það er satt þá styttir þetta engan málsmeðferðartíma. Það þýðir einfaldlega það að það koma greinargerðir sem eru 14 daga virði eftir í rauninni að það er búið að fá þau gögn — miðað við þau gögn sem eru komin. — Ég ætla að halda áfram með það í næstu ræðu, virðulegi forseti, vinsamlegast bætið mér aftur á mælendaskrá.