Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fara yfir nokkrar umsagnir um 2. gr., þ.e. sjálfkrafa kæru sem styttir tíma fólks til að senda inn greinargerð um mál sitt eftir að það er komin niðurstaða frá Útlendingastofnun til kærunefndar. Ég var að fjalla um það að kærunefnd útlendingamála nefndi að hún taki við gögnum seinna í ferlinu, verði í rauninni að gera það upp á rannsóknarregluna að gera og þess háttar. Ef svo er, gefum okkur að það séu allir bara heiðarlegir í þessu og séu að reyna að skila af sér öllum bestu gögnum og allt þar fram eftir götunum — jafnvel þó að þau séu óheiðarleg með það, bara hvernig sem það er — hvernig breytir það þá heildarvinnutíma kærunefndarinnar miðað við núverandi fyrirkomulag þar sem er ákveðinn frestur á skilum greinargerðarinnar, þau segjast samt taka við viðbótum í kjölfarið, ef sá frestur er færður framar, skil á greinargerðinni með orðunum „skal greinargerð vegna kæru berast innan 14 daga“ en þau segjast samt ekki ætla að taka tillit til orðsins skal heldur taka við uppfærðri greinargerð eða viðbótargreinargerð eða eitthvað svoleiðis í kjölfarið? Hvernig er þetta þá stytting á málsmeðferðartímanum? Það eina sem situr í rauninni eftir er þessi mögulega geðþóttaákvörðun að segja: Heyrðu, fyrirgefðu, þú áttir að skila greinargerðinni eftir 14 daga, við ætlum bara að fara eftir lagabókstafnum núna, eftir hentugleika. Annað eins hafa stjórnvöld komist upp með, sem gerir öll svona ákvæði frekar flókin.

Það var ábending t.d. um það af hverju þetta er þá ekki sett í verklagsreglur kærunefndarinnar þar sem það er ýmislegt annað líkt þessu í verklagsreglunum. Af hverju þarf þetta að vera í lagabókstafnum, nema til þess að geta gripið í þennan hnút, nokkurn veginn? Þarna getur viðkomandi bundið hendur þeirra sem eru umsækjendur þarna og talsmanna þeirra, og sagt bara: Nei, fyrirgefðu, samkvæmt lögunum, laganna hljóðan og orðunum og allt svoleiðis, áttir þú að skila innan 14 daga frá birtingu. Ef það voru 14 og hálfur dagur eða 15 dagar, bara afsakið, nei, okkur líður svo að við ætlum ekki að taka við neinu, hlustum ekki á nein rök eða neitt svoleiðis. Fólk hefur alveg upplifað þannig viðhorf frá stjórnsýslunni, það kemst ekkert áfram með málið af því að einhverra hluta vegna, af málefnalegum eða ómálefnalegum ástæðum, er bara búið að loka á og segja: Nei, það virkar ekki, við gerum ekki neitt meira við þetta.

Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig yrði farið með þessa grein í kjölfarið á samþykkt þessara laga. Það verð ég að segja að sé dálítið varhugavert, óháð því náttúrlega hvernig tímafresturinn — þar sem þessir umsagnaraðilar, Mannréttindastofnun HÍ, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar, Íslandsdeild Amnesty international og Rauði krossinn á Íslandi, eru að benda á að þetta gangi einmitt gegn ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, 13. gr., um það að þú hafir raunhæft úrræði til að leita réttar þíns. Það fer að styttast ansi mikið í annan endann þar þegar það er komið niður í 14 daga til að skila greinargerð þegar í almennum reglum stjórnsýslunnar eru það þrír mánuðir. Þegar maður spyr hvar séu einhver sambærileg dæmi hjá einhverjum kærunefndum eða eitthvað svoleiðis, þar sem það eru einhverjir sambærilegir frestir, þá er ekki mikið um svör. Kannski er hægt að taka eitthvað saman en það var alla vega ekki hægt að fá svar við því bara upp úr þurru við beinni spurningu. Eins og ég segi, þetta er mjög áhugavert ákvæði og fyrsta ákvæðið í 2. gr. sem er varað við. Mannréttindasáttmálinn á við hérna. — Ef forseti myndi vinsamlegast vilja bæta mér aftur á mælendaskrá.