Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:16]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég vék hér í fyrri ræðu að útdrætti úr umsögn Mannréttindastofnunar HÍ. Í henni er talið afar óheppilegt að vísa hvorki til ákvæða stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu þar sem efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í því samhengi er bent á brottfall þjónustu sem vísað er til í 6. gr., sem varðar 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 65. gr. hennar. Hér er einnig vísað til breyttra reglna um endursendingar sem varða 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig er vísað til sérákvæða um börn sem varða 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Sömuleiðis er vísað til framkvæmdar ákvarðana sem varðar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og eftir atvikum 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er einnig vikið að ýmsum útfærsluatriðum á málsmeðferð sem kunna að varða 70. gr. stjórnarskrárinnar og 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Í umsögn Mannréttindastofnunar HÍ er einnig vísað til þess að það sé óhjákvæmilegt að löggjafinn taki skýra afstöðu að undangengnu efnislegu mati á því hvort skilyrðum stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Mér vitanlega hefur slíkt mat ekki farið fram þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir því.

Í umsögn Mannréttindastofnunar HÍ er einnig vísað til afar nýlegs dómafordæmis úr Hæstarétti. Í þeim dómsúrskurði gagnrýnir Hæstiréttur að í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, líkt og í því frumvarpi sem við erum hér með til umfjöllunar og var tilefni umsagnar Mannréttindastofnunar HÍ, hafi ekki þótt tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Um það segir Hæstiréttur, með leyfi forseta:

„Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til. […] Við breytingar á verkefnum veiðifélaga, með lögum nr. 50/2015, sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“

Þetta er afar skýrt. Líkindin með þessum dæmum eru það mikil að óhjákvæmilegt er að mínu mati að gengið verði úr skugga um það að við sem löggjafi sinnum þessari stjórnskipulegu skyldu og metum það hvort þessi lagasetning rúmist ekki örugglega innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur. Það er beinlínis okkar hlutverk að tryggja þetta. — Eins og svo oft áður hér í kvöld þá nægir mér ekki ræðutíminn. Ég á nóg eftir og óska þess því að fara aftur á mælendaskrá.