Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir umsagnir umsagnaraðila um hverja grein fyrir sig, taka það sem sagt er saman um hverja grein sem hjálpar aðeins til ná samhenginu. Ég er búinn að fara yfir 1. og 2. gr., en það voru þó nokkrar umsagnir um 2. gr. Í raun fjallaði engin umsagnanna um 3. gr., alla vega ekki sem ég var búinn að punkta niður, en 3. gr er mjög einföld og í henni segir, með leyfi forseta: „Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um er að ræða endurtekna umsókn skv. 35. gr. a.“ Það bætist líka við í breytingartillögu meiri hlutans nýr liður, a-liður, svohljóðandi: „Orðið „og“ í a-lið 2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.“ — sem ég held að þurfi síðan að laga á milli umræðna hjá meiri hlutanum.

Þetta fjallar sem sagt um að hérna getur kærunefndin gefið heimild til formanns nefndarinnar til að afgreiða einn það sem tilheyrir endurteknum umsóknum án þess að öll nefndin sé á því. Það er kannski ein leið til að gera hlutina skilvirkari þarna, að nefndin hittist á tveggja vikna fresti og skiptist alltaf á einhverjum tegundum umsókna. Þannig að ef það væru fleiri fundir eða einhvern veginn öðruvísi tilhögun á kærunefndinni þá væri kannski hægt að ná meiri skilvirkni í úrvinnslu á kærum. En það er ekki er verið að pæla í því, nei. Það þarf að taka tíma af umsækjendum í staðinn fyrir að gefa kærunefndinni í rauninni meira svigrúm til að vinna úr kærunum sem eru búnar að safnast upp. Þetta er svo öfugsnúið þegar maður hugsar um forgangsröðunina á því hvernig á að búa til skilvirkni. Það á að raða kærum hraðar inn til kærunefndar en ekki gefið aukafjármagn eða annars konar vinnulag sem gerði umgjörðina kannski minni en ef hún myndi starfa samfleytt því það eru bara formaður og varaformaður sem eru í fullu starfi. Þá væru aðeins fleiri sem gætu unnið stöðugt eða stöðugra að úrvinnslu kæranna. Kannski myndi það breyta einhverju um málshraðann þar í staðinn fyrir að höggva af tímanum sem fólk hefur til að skila inn greinargerð, í staðinn fyrir að gefa fólki góðan tíma til þess og að kærunefndin sé þá með nægilegt bolmagn til að vinna á skilvirkan hátt úr kærunum. Það er önnur hugmynd um hvernig á að gera hlutina skilvirkari hérna.

4. gr. er svohljóðandi:

„Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði hans til að geta ferðast.“

Hérna er aðeins rifist um hvað þetta getur þýtt. Það er verið að reyna að segja að þetta sé eitthvert vottorð um að viðkomandi aðili sé flugfær en það er heimild fyrir því annars staðar. Það er sagt að það sé ekki nægilega gott og þetta sé tengt við bólusetningarvottorð sem er ekki hluti af flugfærniákvæðinu sem er í lögum um heilbrigðisstarfsfólk, mig minnir að það hafi verið talað um það einhvers staðar þar. Það virðist ekki vera þörf á þessu núna nema fyrir aukagögn sem rétturinn — það að vera ferðafær, þetta er annað en gögn um að vera ferðafær. (Forseti hringir.) Samt er notað orðalagið „til að geta ferðast“. Þetta er frekar óljóst og ég held áfram með þetta í næstu ræðu ef forseti vildi vinsamlegast bæta mér á mælendaskrá.