Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:43]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að grípa hér niður í útdrætti úr umsögnum um frumvarpið til að gera texta aðeins knappari því að það getur tekið langan tíma að fara yfir eina umsögn. Ég var langt kominn með umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og ætla að halda áfram að fjalla um hana. Umsögnin gerir að umfjöllunarefni ákvörðun félagsmálanefndar Evrópu gegn Hollandi, nr. 19/2013, þar sem niðurstaðan varð sú að synjun um lágmarksframfærsluaðstoð við „ólöglega“ innflytjendur stæðist ekki 13. gr. félagssáttmála Evrópu, enda væri hætt við að slík synjun gæti leitt til heimilisleysis og skorts á lágmarksnauðsynjum. Það vill svo til að Ísland er einnig bundið þessum sama félagsmálasáttmála og það er sérstaklega vísað til hans í lögskýringargögnum að baki 76. gr. stjórnarskrár. Það er einnig vísað til þess að algert brottfall aðstoðar við umsækjendur um alþjóðlega vernd geti falið í sér í alvarlegustu tilvikum brot á 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við ómannúðlegri meðferð.

Hér er einnig vísað til þess að grundvallarforsenda undanþáguheimildar frumvarpsins til að þjónusta falli ekki brott, falli ekki niður, er háð því að útlendingur hafi sannanlega sýnt samstarfsvilja við að fara af landi brott. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands víkur að því að í fyrrgreindu máli í Hollandi hafi félagsmálanefndin tekið fram berum orðum að það væri ekki heimilt að gera að skilyrði neyðaraðstoðar við útlendinga að hann sýndi slíkan samstarfsvilja í eigin brottvísun. Mig langar einnig að benda á hversu matskennt það gæti talist hvenær útlendingur sýnir samstarfsvilja. Það býður töluvert hættunni heim og er ekki beint ávísun á gegnsæi.

En það voru fleiri umsagnir um frumvarpið og ein var frá prestum innflytjenda og flóttafólks sem vísa, líkt og svo margir aðrir umsagnaraðilar, til 6. gr. sem varðar brottfall þjónustu. Er hér töluverður samhljómur með fyrri umsagnaraðilum sem vikið hefur verið að og bent á að ef breytingin næði fram að ganga þá þýddi það að grundvallarþjónusta hvað varðar heilsu, öryggi og velferð yrði tekin af viðkomandi einstaklingum sem þyrftu þá að leita skjóls á götunni, þ.e. hafi þau ekki yfirgefið landið sjálfviljug. Benda prestar innflytjenda og flóttafólks á að að þeirra mati hljóti slík framkvæmd af hálfu ríkisins að stangast á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og skyldu okkar til að standa vörð um velferð allra sem dvelja á landinu. — En nú er svo komið að tími minn er á þrotum og ég óska því eftir því að komast aftur á mælendaskrá.