Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að taka fyrir hverja grein fyrir sig og hef ég safnað saman umsögnunum um þær til þess að reyna að ná þar ákveðinni heild, hvað sé sameiginlegt og svipað og hvar þær greini á.

4. gr. frumvarpsins er áhugaverð grein þar sem segir:

„Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði hans til að geta ferðast.“

Ég var búinn að lýsa því að þetta virðist vera heimild til að fá gögn sem uppfylla skilyrði um að vera ferðafær. En það virðist ekki vera þannig í lýsingunni á þessu og líka er sú heimild til í öðrum lögum. Þá er útskýringin einhvern veginn að það þurfi að gera það skýrara, en af hverju er það þá ekki gert skýrara í þeim lögum en ekki þessum lögum? Það virðist vera eins og það sé í rauninni annar tilgangur með þessu, þ.e. að ná í heilbrigðisupplýsingar sem eru til viðbótar við þær sem er heimilt að fá til að vita hvort viðkomandi sé ferðafær því að stjórnvöld eiga að hafa þá heimild nú þegar. Þarna var t.d. talað um bólusetningar en þetta gæti varðað ýmislegt annað.

Bæði Læknafélagið og Rauði krossinn á Íslandi gerðu athugasemdir við þessa grein og í umsögn Læknafélagsins er sagt, með leyfi forseta:

„LÍ vill þó árétta þá afstöðu að kalli útgáfa heilbrigðisvottorðs á heilbrigðisskoðun eða læknisrannsókn á grundvelli nýrrar 3. mgr. 17. gr. laganna, verði frumvarpið að lögum, og viðkomandi samþykkir ekki slíka rannsókn þá verður hún aldrei framkvæmd að mati LÍ nema að undangengnum dómsúrskurði.“

Rauði krossinn á Íslandi segir, með leyfi forseta:

„… öflun vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis viðkomandi“ — 4. gr. — „felur í sér víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks og þurfa ákveðin skilyrði því að vera uppfyllt svo lagasetning sem þessi standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar […] að þær séu í fyrsta lagi reistar á skýrri lagaheimild, stefni í öðru lagi að lögmætu markmiði og í þriðja lagi gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé svo að markmið þeirra náist.“

Í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu er miðað að því að aðeins sé gripið til takmarkana á friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, til að firra glundroða eða glæpum, ef það er í þágu almannaheilla auk þess sem þær kunna að vera í þágu þjóðaröryggis.

Það er mat Rauða krossins á Íslandi að umrædd heimild til að afla gagna uppfylli ekki þessi skilyrði, sem hefur verið staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu. Ástæðan fyrir þessari breytingu er þetta tímabundna ástand sem skapaðist vegna Covid. Ekki verður séð að slíkar aðstæður skuli leiða til að lögreglu verði fengin heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum heilt yfir, af því að heimildin takmarkast ekki við sóttvarnagögn. Kannski hljómar þetta sakleysislega af því að hér er sagt „til að geta ferðast“, en eins og hefur verið sagt áður þá er heimild fyrir því annars staðar í lögum að fá vottorð um að viðkomandi sé ferðafær og því skrýtið að hafa hana hérna líka, með tilvísun í bólusetningarvottorð sem er síður þörf á núna og er í rauninni ekki hluti af skilyrðunum um að vera ferðafær. Það var hluti af öðrum takmörkunum, sem þarfnast annarra útskýringa en þeirra sem lúta að heilsufarsupplýsingum um að vera ferðafær, sem er skilgreint á miklu almennari hátt, og er búið að veita þá heimild og útskýra hana með tilliti til mannréttinda og þess háttar. Það er ekki flókið enda er það í þágu viðkomandi aðila. En þetta ákvæði virðist vera í þágu stjórnvalda sem er það sem er varhugavert við það. — Forseti. Vinsamlegast bætið mér aftur á mælendaskrá.