Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:31]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég er búinn að vera að bera hérna niður í umsögnum um frumvarp það er hér er til umfjöllunar og hef verið að fara yfir útdrætti. Þrátt fyrir að ég sé bara með útdrætti tekur töluverðan tíma að fara yfir þá en ég er kominn ágætlega af stað með útdrátt úr umsögn Rauða krossins á Íslandi. Rauði krossinn vísar til þess að í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu sé miðað að því að aðeins sé gripið til takmarkana á friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra, til að firra glundroða eða glæpum, það sé í þágu almannaheilla auk þess sem þær kunni að vera í þágu þjóðaröryggis. Það er mat Rauða krossins að umrædd heimild til að afla gagna uppfylli ekki þessi skilyrði sem hafa verið staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu. Ástæðan fyrir þessari breytingu sé vegna þess tímabundna ástands sem skapaðist af Covid og ekki verði séð að slíkar aðstæður skuli leiða til að lögreglu verði fengin heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum heilt yfir. Rauði krossinn bendir einnig á að heimildin takmarkist ekki við sóttvarnagögn.

Eins og svo margir aðrir umsagnaraðilar víkur Rauði krossinn að 6. gr. sem varðar þjónustuskerðingu. Það er nánast eins og hver einasta umsögn sem ég ber niður í ávarpi hana sérstaklega og hér hafa allir áhyggjur af sömu hlutunum, að það sé, eins og Rauði krossinn bendir á, fyrirséð að þau sem ekki yfirgefið landið innan 30 daga endi heimilislaus án framfærslu og jafnframt án grunnheilbrigðisþjónustu. Undantekningar séu vegna þess að einstaklingar eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en það séu ítrekuð dæmi um að Útlendingastofnun vanræki það að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort einstaklingar falli undir það og jafnframt sé það túlkað mjög þröngt og þá endurmeti kærunefnd útlendingamála ekki það mat Útlendingastofnunar. Oft fari þetta mat svo ekki fram með aðkomu þar til bærra sérfræðinga. Hér bara blasir við hvernig þetta ákvæði mun brotna, hvernig við munum svipta fólk þeim grundvallarmannréttindum sem þessari grein er ætlað að gera, sem ekki bara við heldur öll þessi samtök benda á.

Það er fleira. Það er vísað til þess að einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en hafa ekki fengið viðurkenningu á því frá Útlendingastofnun búi við talsvert færri tækifæri til að yfirgefa landið innan þess knappa tímafrests sem ætlað er að gefa, sem eru 30 dagar. Í því er hætt við að það komi verst niður á þeim sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. — Mér nægir ekki tíminn til að fara fyllilega yfir þetta en ætla þó ekki að fara á mælendaskrá að sinni.